144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla svo sem ekki að elta ólar við þetta mikið meira. Ég ætla bara að gera ráð fyrir að hæstv. fjármálaráðherra viti vel að fjárfestingaráætlunin á sínum tíma var meðal annars fjármögnuð með þeim peningum sem hann kemur núna með inn í fjáraukalög þannig að því sé haldið til haga.

Og, já, þetta snýst um forgangsröðun. Mér finnst mjög aðkallandi að hún verði rædd af þessu tilefni. Núna þegar þessi peningur kemur inn í fjáraukalög þarf að ræða með hvaða hætti er réttlætanlegt að nota fjármuni sem koma sem arðgreiðslur úr bankakerfinu. Ég held að þær verði að nota til arðbærra fjárfestinga annars vegar, sem skili af sér meiri arði í ríkissjóð í framtíðinni, og hins vegar til að greiða niður opinberar skuldir sem minnka vaxtagjöld. Ég held að arði af eigum sé skynsamlegt að ráðstafa svona.

Svo langar mig að spyrja út af skuldaleiðréttingunum og hvort við megum vænta frekari tíðinda í umræðu um fjáraukalög: Er búið að semja við Íbúðalánasjóð? Mun upphæðin sem Íbúðalánasjóður þarf að taka á sig vegna uppgreiðslna (Forseti hringir.) á lánum út af skuldamillifærslunni koma inn í fjáraukalög (Forseti hringir.) og er yfir höfuð búið að semja við Íbúðalánasjóð um alla þessa stóru kostnaðarliði?