144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu vegna þess að það er lágmark, finnst mér, að forsætisráðherra sé hér viðstaddur. En kannski er það óskapleg kröfuharka í tíðaranda nútímans á Alþingi að maður fari fram á það að forsætisráðherra sé hér a.m.k. að hlýða á talsmenn hinna flokkanna í málinu sem hann sjálfur flytur? Er það óraunhæf krafa? Er það ósanngjörn krafa? Nei, það tel ég ekki. Ég held það sé fullkomlega eðlilegt að hann geri það þegar um er að ræða svona stórt mál.

Ég vil því leggja til, og það er mér að meinalausu, ég er á mælendaskrá hér á eftir, og spyrja hæstv. forseta hvort við getum ekki frestað umræðunni þangað til hæstv. forsætisráðherra hefur tíma til að vera með okkur í henni. Það er ekki boðlegt að hann flytji sína skýrslu og fái svo bara að skottast út eins og einhver sem er málinu óviðkomandi, sem hann er ekki.