144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[10:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. 9. þm. Reykv. s. Það er skýrt munstur að hæstv. forsætisráðherra er oft ekki hér á tímum sem maður mundi búast við því að hann væri hér. Gott og vel ef það kæmi fyrir af og til að hæstv. forsætisráðherra þyrfti að rjúka, en þetta er skýrt munstur og þetta er viðvarandi og við höfum bent á þetta frá því á fyrsta sumarþinginu sem ég starfaði hér á Alþingi. Þá kom í ljós í lok Hagstofumálsins svokallaða að maðurinn hafði ekki hlustað á eitt aukatekið orð sem sagt hafði verið í pontu eftir þó nokkuð miklar umræður.

Þetta er skýrt munstur og það er óþolandi. Þetta er vanvirðing við þingið og þetta gengur ekki. Núna í þessu stærsta kosningamáli kjörtímabilsins er hæstv. ráðherra ekki hér til þess að hlusta á umræðurnar þrátt fyrir að á fundi formanna þingflokka hafi sérstaklega verið gert ráð fyrir því að hann væri á staðnum. Þetta er ekki hægt, virðulegi forseti.