144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

fjarvera forsætisráðherra í umræðu um skuldaleiðréttingu.

[10:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að viðbrögðin við því hvernig hæstv. forsætisráðherra kom fram hér í gær stafi ekki síst af tvennu.

Í fyrsta lagi var búið að gera samkomulag um hvenær hann yrði hér í salnum og við erum yfirleitt vön því að slíkt samkomulag standist.

Í öðru lagi er það vegna þess, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist á hér áðan, að þetta er ekki í fyrsta skiptið.

Við höfum kannski allt of lengi látið hjá líða að gera alvarlegar athugasemdir við viðveru hæstv. forsætisráðherra hér í salnum þegar um er að ræða stór mál á höndum ríkisstjórnarinnar; og nú er um að ræða mál sem hann flytur sjálfur. Það þarf ekki mikla rannsóknarvinnu til að para saman hvenær og hvernig hæstv. ráðherra hefur verið hér við slíkar umræður.

Virðulegi forseti. Við óskum eftir því einu að talað verði við hæstv. forsætisráðherra — og þar með ríkisstjórnina, ég ætla ekki að segja að þetta eigi við um aðra ráðherra — (Forseti hringir.) og hann beðinn um að breyta þessu fyrirkomulagi sínu.