144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

Túlkasjóður.

[11:10]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en maður veltir fyrir sér, af því að við erum aðilar að alþjóðasamningum, hvernig við uppfyllum þau mannréttindi sem við eigum í raun að gera. Ef maður horfir til annarra norrænna ríkja sem við erum alltaf að bera okkur saman við þá erum við svo langt á eftir þeim hvað varðar túlkaþjónustu. Sem manneskja í þessari stöðu þarf maður að velta fyrir sér hvaða tveimur mánuðum á ári maður eigi að sleppa. Þetta er ekki til sóma fyrir okkur sem þjóð. Það að svipta heyrnarlausa borgara sem bera enga ábyrgð á þeirri stöðu tjáningar- og upplýsingafrelsi með því að veita ekki túlkun íslensks táknmáls, sem hefur lögum samkvæmt fengið jafn réttháa stöðu og íslenskt talmál, er gróf aðför að mannréttindum að mínum dómi. Þetta er grundvöllur þess að geta af öryggi verið partur af samfélaginu líkt og heyrandi borgarar. Um þetta snýst málið.

Ég er ekki að kenna hæstv. ráðherra um þessa stöðu heldur okkur öllum og við þurfum að gyrða okkur í brók hvað þetta varðar.

En mig langar að spyrja að lokum: Hvaða eftirlit er haft með því að Samskiptamiðstöð fyrirbyggi það að þessi staða komi upp fyrirvaralaust?