144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

framkvæmd þingsályktunar um tjáningar- og upplýsingafrelsi.

[11:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og hreinskilnina. Mér finnst mjög mikilvægt, tel það lykilatriði í stjórnsýslunni, að vilji Alþingis verði raungerður almennt og ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra er fullkomlega sammála mér þar.

Nú vita menn kannski í þessum sal að ég þyki ágætur öfgamaður í tjáningarfrelsismálum að mínu mati aðallega vegna þess að ég aðhyllist það. En það þarf ekki að ganga í alla átt að mínum persónulegu skoðunum gagnvart tjáningarfrelsi til að gera þessar tillögur að raunveruleika enda er tillagan sú að þetta sé rannsakað af lögfræðingum með tilliti til annarra löggjafa og vissulega þeirra takmarkana á tjáningarfrelsi sem eru eðlilegar í lýðræðisríkjum. Þær eru til, ég hafna því ekki, enda er þetta á forræði ríkisstjórnarinnar eins og er.

Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Ef hann fær þessi tæki, starfsfólkið og það fjármagn sem hann telur nauðsynlegt til að vinna verkið, er hann reiðubúinn til að beita sér fyrir því að þetta verði klárað sem fyrst?