144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

millilandaflug um Vestmannaeyjaflugvöll og Ísafjarðarflugvöll.

121. mál
[13:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Vestmannaeyjaflugvöll og Ísafjarðarflugvöll. Ég er einn af meðflutningsmönnum þeirrar tillögu. Þetta er mál sem hefur verið í umræðunni, a.m.k. annar þessara flugvalla, þ.e. Ísafjarðarflugvöllur. Ég tel rétt að við þingmenn reynum að koma þessum málum áfram svo að það verði möguleiki á að koma á millilandaflugi frá þeim völlum sem um ræðir og fleirum reyndar, eins og hv. 1. flutningsmaður, Ásmundur Friðriksson, nefndi, t.d. frá Höfn í Hornafirði. Ég tel það vera mikið hagsmuna- og byggðamál fyrir þessa staði að hafa þessa möguleika og gæti skipt gríðarlega miklu máli fyrir atvinnuuppbyggingu þar.

Ég vil í þessu sambandi aðeins rifja upp forsöguna af þeim flugvelli sem ég þekki betur til og er í mínu kjördæmi, þ.e. Ísafjarðarflugvöllur. Þó margt þar megi heimfæra á Vestmannaeyjaflugvöll þá ætla ég aðeins að fara í gegnum það sem hefur verið gert í þessum málum og rifja það upp í þessu samhengi. Það hefur oft, eins og ég hef nefnt, verið í umræðunni hjá sveitarstjórnarmönnum vestur á fjörðum, á Ísafirði, í Bolungarvík, Ísafjarðarbæ og fleiri sveitarfélögum, að skoða möguleika á að koma á millilandaflugi frá Ísafirði.

Árið 2007 var þetta mál tekið upp við þáverandi samgönguráðherra Kristján L. Möller og þá var mikill áhugi á norðanverðum Vestfjörðum að skoða sérstaklega farþegaflug til Austur-Grænlands. Það voru líka uppi miklar hugmyndir um beint flug með ferskan fisk á erlenda markaði. Fyrirtæki sem þá var á Flateyri var með hugmyndir í þeim efnum og fóru af stað viðræður við þáverandi samgönguráðherra um þau mál. Þá kom fram að Ísafjarðarflugvöllur væri nógu langur fyrir slíkt flug en margt annað þyrfti að skoða betur varðandi öryggiskröfur og alþjóðlegar reglur. Ekkert varð úr neinum framkvæmdum í þá átt að uppfylla þau skilyrði í framhaldinu.

Síðan hefur ýmislegt verið gert af hálfu þingmanna til að halda þessu máli vakandi. Á 139. löggjafarþingi var lögð fram þingsályktunartillaga um millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll þar sem 1. flutningsmaður var hv. þm. Einar K. Guðfinnsson. Þar var sú sem hér stendur ein af meðflutningsmönnum ásamt fleiri þingmönnum. Sú ályktun var á þann veg að Alþingi ályktaði að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli væri nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt væri að sinna þaðan millilandaflugi með flugvélum sem hefðu heimild til að fljúga um völlinn. Málið var rökstutt með ítarlegri greinargerð.

Ég ætla aðeins að grípa niður í hana, með leyfi forseta:

„Ísafjarðarflugvöllur gegnir ómetanlegu hlutverki og er ein helsta samgönguæð Vestfirðinga. Unnið hefur verið að margvíslegum endurbótum á flugvellinum og hafa þær verið til mikilla bóta fyrir flugsamgöngur til Vestfjarða. Það heftir hins vegar vaxtarmöguleika vallarins að ekki er almenn heimild til þess að stunda um hann millilandaflug. Slík starfsemi var þó stunduð á árum áður og skipti miklu máli. Landfræðilegar aðstæður til almenns millilandaflugs eru að sönnu erfiðar. Á hinn bóginn er völlurinn einn hinn fjölfarnasti í almennu innanlandsflugi og með undanþágum er stundað þaðan takmarkað millilandaflug. Þann þátt starfseminnar þarf að efla með sérstakri áherslu á þá möguleika sem eru til aukins samstarfs Vestfjarða og Grænlands.“

Árið 2008 fór þáverandi utanríkisráðherra í heimsókn til Grænlands og bæjarstjóri Ísafjarðar var með í för. Vakin var athygli á möguleikum á auknu samstarfi milli Vestfjarða og Grænlands. Ég tel að þarna séu miklir möguleikar undirliggjandi, bæði í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Á Ísafirði er horft til nálægðar við Austur-Grænland, vinabæjasamskipti bæja á Grænlandi við Ísafjarðarbæ og möguleika á samstarfi í ferðaþjónustu með frekara flugi og siglingum. Nú þegar er skúta gerð út frá Ísafirði sem býður upp á siglingar og ég held að ég fari rétt með að það séu jafnvel möguleikar á siglingu til Grænlands frá Ísafirði. Það eru möguleikar á siglingu með vistir til byggða á Austur-Grænlandi ef áhugi væri á því og þjónusta við sjúkrahús. Sjúkrahús á Ísafirði gæti sinnt þjónustu við austurhluta Grænlands. Ég held að það séu um 275 km frá austurströnd Grænlands, frá ákveðnum punkti þar, til Vestfjarða. Það er skemmtilegt að segja frá því að það er styst frá mínum heimabæ, Suðureyri, til ákveðins punkts á austurströnd Grænlands, um 275–280 km. Ég tel að þarna séu mikil tækifæri vegna aukinna samskipta við menntaskólann og sjúkrahúsið á Ísafirði og alla þá þjónustuaðila sem eru þar og gætu sinnt ýmissi þjónustu við Austur-Grænlendinga.

Ég er mjög ánægð með að hv. þingmaður hefur átt frumkvæði að því að taka þetta mál upp og vinna því brautargengi. Ég styð þá vinnu heils hugar.

Ég vil aðeins í lokin rifja upp að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var með fyrirspurn tengda tillögunni sem ég vitnaði í hér áðan og var flutt af honum ásamt þeirri sem hér stendur og fleiri þingmönnum árið 2011. Þá spurði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þáverandi innanríkisráðherra, Ögmund Jónasson, um hvaða möguleikar væru í þessari stöðu að koma á millilandaflugi við Ísafjörð. Fram kom að vissulega væru erfiðar aðstæður á Ísafjarðarflugvelli sem krefðust þess að leitað yrði eftir undanþágum, en það breytti ekki því að mat manna væri að hægt væri að nota flugvöllinn sem millilandaflugvöll með lágmarksfjárfestingum, stofnkostnaði og síðan rekstrarkostnaði, annars vegar stofnkostnaði upp á 85 milljónir og hins vegar 34 milljónir í rekstrarkostnað á ári. Það þyrfti auðvitað að uppfæra tölurnar frá þessum tíma. Mér finnst rétt að nýta þessar upplýsingar í samhengi við þá tillögu sem liggur nú fyrir og við erum að fjalla um þar sem lagt er til að Samgöngustofu verði falið að leita leiða til að flugvellirnir í Vestmannaeyjum og á Ísafirði verði áfram lendingarstaðir enda þótt takmarkað millilandaflug verði heimilað á þeim.

Í blálokin vil ég minna á að því miður er í fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 allt of litlu fjármagni varið til flugvalla í landinu og hæstv. innanríkisráðherra hefur meira að segja talað um að loka þurfi flugvöllum. Ég skora á núverandi meiri hluta að leggjast á árar með okkur hinum og bæta þar úr.