144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[15:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við erum að ræða skuldaleiðréttinguna miklu. Ég vil taka það strax fram að ég var á móti þeirri aðgerð í byrjun vegna þess að ég taldi að það bæri að ráðstafa því mikla fé sem hér er verið að ráðstafa með öðrum hætti, t.d. til heilbrigðismála eða almennt til leigjenda og fleiri. Ég viðurkenni það að þetta er hluti af kosninganiðurstöðu, niðurstöðu síðustu alþingiskosninga þar sem þetta var meginmálið og var niðurstaða kosninganna sú að þeir sem börðust fyrir þessu fengu mikinn atbeina í kosningunum. Svo voru sett um þetta lög. Ég er þannig gerður að ég hlýði lögum og viðurkenni það að þetta er eitthvað sem Alþingi er búið að ákveða. Og af því að búið er að ákveða þetta finnst mér niðurstaðan ljómandi góð. Hún er ljómandi góð. Hún gengur eiginlega framar mínum vonum. Ég er sérstaklega ánægður með séreignarsparnaðinn sem ég greiddi atkvæði með, enda er ég bæði hlynntur skattalækkun og sparnaði og hvatningu til sparnaðar Ég var því og er mjög hlynntur séreignarsparnaðinum og er mjög ánægður með að hann sé kominn í gang.

Skuldsetning heimila hér á landi er ótrúlega há og hættulega há. Heimilin skulda allt of mikið. Þess vegna er ég mjög ánægður með að þessar aðgerðir í heild sinni lækka skuldsetninguna um 80 milljarða fyrir skuldaleiðréttinguna og 70 milljarða vegna séreignarsparnaðar, 150 milljarða, og munar heldur betur um það. Íslensk heimili eru því betur í stakk búin til að mæta áföllum eftir heldur en áður. Ég er mjög ánægður með þá niðurstöðu, þá heildarniðurstöðu sem hér kemur fram.

Síðan er það spurningin um áhrif á verðlag, hvaða áhrif þessar aðgerðir hafa, og þá er ég að tala um bæði skuldaleiðréttinguna og áhrif séreignarsparnaðarins. Í því sambandi vil ég minna á að fyrir nokkrum dögum lækkaði Seðlabankinn stýrivexti. Nú eru þar miklir spekingar sem ég ber mikla virðingu fyrir og ég tel að þeir hefðu ekki lækkað stýrivexti nema þeir teldu að ekki væri mikil hætta á verðbólgu. Þetta var fyrsta lækkunin í langan tíma og það segir mér að þeir spekingar meta það þannig, af því að þeir hljóta að hafa vitað af þessari skuldaleiðréttingu, svo lítið hefur nú ekki verið talað um hana, að þessi skuldaleiðrétting hafi ekki mikil áhrif á verðlag.

Auðvitað eykur þetta ráðstöfunartekjur heimilanna, en sennilega með hægasta móti. Ef menn ætla að dæla 80 milljörðum út í atvinnulífið er þetta líklegasta hægvirkasta aðferðin til að hafa áhrif á framboð og eftirspurn og þar með verðbólgu, vegna þess að þetta kemur til skila á svona 20, 30, 40 árum og lækkar greiðslubyrðina eitthvað til að byrja með en líka næstu 20–30 árin. Þetta kemur því mjög hægt fram en munar um það hjá þeim heimilum sem fá.

Á móti kemur náttúrlega, það liggur dálítið í stjörnunum hvað kemur út úr því, að með séreignarsparnaðinum er verið að hvetja fólk til sparnaðar. Þegar menn spara eyða þeir því ekki í annað, þeir eyða því ekki til að kaupa lækkandi sjónvörp og alls konar, ísskápa og svoleiðis, heldur spara þeir og það dregur úr neyslu. Það vinnur gegn verðbólgu. Þannig að ég held að heildarniðurstaðan, sérstaklega ef menn yrðu mjög glaðir við að spara og notuðu til þess skattalækkanirnar, verði að það dregur úr verðbólgu. Heildarniðurstaðan er því, eins og Seðlabankinn metur það, sennilega núll, ekki mikil áhrif.

Svo skoðar maður þessa niðurstöðu og kynningin var alveg frábær, herra forseti, leiddi margt í ljós. Tekjudreifingin var mjög hugguleg. Allir tekjuhópar fengu sitt og ekki síður fólk með lágar tekjur. Námsmenn sem eru með lágar tekjur og aldraðir o.s.frv., allir fengu. Aldursdreifingin var líka mjög hugguleg og kom vel út. Eignadreifingin var enn betri. Heildarniðurstaðan er sú að ég er mjög sáttur við niðurstöðuna sem er komin, að því gefnu að lögin hafi verið samþykkt, sem ég var á móti.

Menn hafa leyft sér að bera þetta saman við 110%-leiðina sem var farin á síðasta kjörtímabili. Það er ekki öldungis sanngjarnt að bera það saman vegna þess að þar var verið að leiðrétta skuldir sem voru fyrir fram glataðar. Það eru ekki miklar líkur á því að maður sem skuldar 140% í íbúðinni sinni standi alveg í skilum, það eru eiginlega engar líkur á því. Það er ekki því alveg sambærilegt. En þar voru náttúrlega miklar og stórar upphæðir á ferðinni.

Það sem gleður mig mest er það að 2.500 heimili, 4.000 einstaklingar, færast úr því að skulda meira en þeir eiga, úr neikvæðri eiginfjárstöðu í jákvæða. Það er virkilega hvetjandi fyrir fólk.

Eins og ég nefndi er gleðilegi hlutinn sérstaklega séreignarsparnaðurinn og skattalækkanir honum tengdar sem mun hvetja fólk til sparnaðar. Ég hef alltaf verið hlynntur bæði skattalækkunum og auknum sparnaði þannig að allt er þetta mér mjög að skapi, eða sá hluti alla vega.

Eignir í íbúðarhúsnæði eru kjölfestan í eignamyndun á Íslandi. Margir vilja ekki að fólk eigi í íbúðarhúsnæði, en það er einmitt kjölfestan í því að fólk eignist eitthvað og þeir sem eiga eitthvað eru sjálfstæðari en hinir — sjálfstæðir og ættu að kjósa Sjálfstæðisflokkinn — en maður sem á eitthvað, segjum að hann eigi skuldlausa eign þegar hann er orðinn 60, 70 ára, það er bara allt annað líf. Það er allt annað líf en ef hann á ekki neitt. Eignamyndun í heimilum er verulega mikill þáttur í því að auka sjálfstæði fólks.

Það vill svo til að 21% heimila býr í skuldlausri eign og fær ekkert út úr þessu, en það fólk á skuldlausa eign, það skuldar ekkert í eigninni sinni. Það hlýtur að muna, eða ekki hlýtur heldur munar það miklu fyrir þá sem eru orðnir aldraðir og lækka mikið í tekjum út af lífeyri, þá er ansi gott að búa í skuldlausri eign. Ég segi það.

Ég vil ekki vera að ráðleggja fólki neitt af því ég er á móti því að hafa vit fyrir fólki, en ef ég væri leigjandi, sem ég er ekki, og ef ég væri ungur og byggi heima hjá pabba og mömmu á hótel mömmu, sem ég geri ekki, þá mundi ég skella mér í séreignarsparnað, njóta skattfrelsis og byggja upp sparnað og eftir nokkur ár gæti ég sagt við mömmu: Halló, ég er farinn, ég er búinn að kaupa mér íbúð og takk fyrir sambúðina, hún var dálítið erfið á tímum, það vita allir, bæði mamman og börnin. En þá geta menn keypt sér íbúð. Ég er mjög ánægður með það, herra forseti.