144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Nú á að byrja, og ég segi byrja af því að þetta tekur fjögur ár, að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán vegna forsendubrestsins í hruninu. Þetta eru verðtryggð húsnæðislán og forsendubrestur. Það sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra að er: Hvað ef Hæstiréttur leiðréttir þennan forsendubrest um mitt næsta ár og eftir standa þrjú ár af leiðréttingu á forsendubresti sem þegar hefur verið leiðréttur af Hæstarétti um mitt næsta ár? Hvað gerist þá?

Hvað meina ég? Ef hæstv. forsætisráðherra hlustaði ekki á ræðu mína fyrr í dag, hann var nú í húsinu og ég sá — jú, hann segist hafa hlustað á hana og þá er hann líklega meðvitaður um það að þetta er staðan. Staðan er sú að Hæstiréttur mun mögulega leiðrétta verðtryggð húsnæðislán á næsta ári. Það eru ágætar líkur á því og við munum vita enn þá meira um það 24. þessa mánaðar þegar EFTA-dómstóllinn gefur álit sitt um það hvort hann sé sammála eftirlitsstofnun sinni, ESA, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Neytendastofu á Íslandi um að útfærsla verðtryggðra húsnæðislána hafi verið ólögmæt frá 2001. Ef Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu, dómsmálið er hafið, aðalmeðferðin verður fyrir Héraðsdómi í desember og kemur inn í Hæstarétt mögulega einhvern tíma um mitt næsta ár, fyrir eða eftir, veltur á því hver vinnur fyrir Héraðsdómi, verður þetta spurning um þennan frest sem menn hafa til þess að kæra upp í Hæstarétt. Ef Íbúðalánasjóður vinnur munu Hagsmunasamtökin kæra strax, þá verður það styttri tími. Ef Íbúðalánasjóður tapar mun hann eflaust nýta kærufrestinn í þessa þrjá mánuði. En um mitt næsta ár fáum við þetta frá Hæstarétti og við fáum það endanlega frá Hæstarétti. Hæstiréttur er síðasta stoppustöðin í þessu máli. EFTA-dómstóllinn hefur þegar gefið álit um að verðtryggingarmálin skuli ákveðin í héraði, á Íslandi, þannig að við munum um mitt næsta ár fá úr því skorið hvort útfærsla verðtryggðra neytendalána, verðtryggðra húsnæðislána sé ólögmæt á Íslandi.

Ef svo er, ef Hæstiréttur er sammála ESA, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Neytendastofu, um að þetta sé ólögmætt, fellst á þær kröfur, mun leiðréttingin eiga sér stað, forsendubresturinn er farinn. Hvað gerist þá?