144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:31]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu í dag og í gær. Það var ljómandi gott að tveir dagar skyldu fara í að ræða þetta góða mál. Vonandi verða þeir miklu fleiri í framhaldinu, enda er þetta mál sem mun hafa áhrif ekki bara núna á næstu vikum og mánuðum á meðan verið er að innleiða þetta eða næstu þremur árum heldur áratugi fram í tímann.

Fjölmörg heimili, sérstaklega þau heimili sem tóku lán á árunum í aðdraganda bankahrunsins, verða í umtalsvert betri stöðu, ekki bara á næsta ári og þarnæsta heldur að áratugum liðnum. Þetta sem við höfum rætt hér í dag og í gær er mál sem mun augljóslega skipta miklu fyrir heimilin en líka fyrir samfélagið og íslenskt efnahagslíf til áratuga. Það hefur verið virkilega skemmtilegt að fylgjast með umræðunni í dag og í gær, sérstaklega auðvitað að heyra þingmenn stjórnarliðsins fara yfir alla þá mörgu kosti sem hafa ýmist legið fyrir lengi eða urðu endanlega ljósir þegar niðurstöður voru kynntar fyrir nokkrum dögum. Maður getur ekki annað en þakkað fyrir slíka umræðu.

Það er kannski líka ástæða til þess að þakka fyrir athugasemdir stjórnarandstöðunnar vegna þess að þær sýna okkur að ekki hafa fundist neinir nýir vankantar á málinu. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að tala um gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Það er ekki ástæða til þess því að það sem við fengum að heyra sem gagnrýni á þetta mál held ég að hafi verið í nánast öllum tilvikum, ef ekki öllum, það sem við höfum fengið að heyra undanfarin ár og undanfarna mánuði, allt atriði sem ýmist hafði verið svarað áður eða með kynningunni núna fyrir fáeinum dögum.

Þó get ég ekki látið hjá líða, bara vegna þess að mér fannst það eiginlega svolítið skondið, að nefna að nokkrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar skyldu enn halda því fram, og hafa það sem helsta svarið þegar þessi niðurstaða liggur fyrir, að einn helsti gallinn við þetta mál allt saman væri sá að það hefði ekki kostað nógu mikið. Það er reyndar sama fólk og kvartaði mikið undan því að þetta væri dýrt, en nefndi líka að þetta hefði ekki kostað nógu mikið af því að þetta hefði ekki kostað 300 milljarða. Það er sama hversu oft sannleikurinn kemur í ljós, þetta sama fólk telur greinilega hægt að vega upp á móti því með því að endurtaka rangfærslurnar einu sinni enn og halda því fram að hér hafi því verið lofað að þetta ætti að kosta 300 milljarða.

Ástæðan fyrir því að ég nefni að mér þyki þetta skondið er sú að ég eyddi mörgum árum í að deila við þetta sama fólk um hvað það mundi kosta að koma til móts við heimilin. Því var stundum haldið fram að það mundi kosta 220 milljarða, 250, 300, sögðu kannski einhverjir. Ég reyndi eins og ég mögulega gat árum saman að útskýra að þetta væri ekki svona dýrt, þyrfti ekki að kosta nærri því þetta mikið. En núna þegar verið er að framkvæma þetta er reynt að snúa þessu við líka. Það er margt skrýtið í þessu en ekki ástæða til að verja löngum tíma í það því að þetta er gleðidagur eins og undanfarnir dagar.

Mér þykir það leiðinlegt frekar en nokkuð annað að stjórnarandstaðan skuli hafa verið búin að setja sig í þá stöðu að finnast hún þurfa að vera neikvæð, finnast hún þurfa að fara í þessa umræðu á þann hátt að hún reyndi að gera allt tortryggilegt og endurtaka athugasemdir og gagnrýni sem löngu hefur verið svarað og leiðrétt og halda því svo fram að það sem væri þó umfram allt slæmt við þessa aðgerð, sem nær nú þegar til yfir 91 þús. manns, væri að hún leysti ekki vanda allra. Það hefði þá líklega orðið fyrsta frumvarp heimssögunnar sem leysti vanda allra í einu.

Það að þessi árangur hafi náðst fyrir þetta stóran hluta samfélagsins hefur hins vegar áhrif á samfélagið allt til góðs. Þetta mun gagnast öllu samfélaginu á Íslandi til mjög margra ára eins og ég hef getið um áður. Það þýðir ekki að menn ætli að líta fram hjá öðrum hópum en þetta frumvarp var sniðið að. En hér er loksins komið til móts við mjög stóran hóp sem hefur legið óbættur hjá garði allt of lengi, í sex ár. Við framsóknarmenn höfum barist fyrir þessu næstum því jafn lengi, frá því í byrjun febrúar 2009, við meira að segja trúðum það mikið á þetta þá að við vorum reiðubúnir að gefa minnihlutastjórn tækifæri í þrjá mánuði með því skilyrði að hún mundi klára þetta mál. Svo mikilvægt fannst okkur það þá. Tækifærið var ekki nýtt þá en fyrir tilstilli mikils fjölda frábærs og hæfileikaríks fólks tókst að leysa þetta eins og bestur var kostur við þær aðstæður sem upp voru komnar.

Ég vil enda þessa síðustu ræðu á því að þakka þeim mikla fjölda fólks hjá ríkisskattstjóra, í ráðuneytunum, utanaðkomandi sérfræðingum, verkefnisstjórninni, verkefnisstjóranum og öðrum sem lögðu sín lóð á vogarskálarnar til að þetta gæti orðið að veruleika. Þetta hefði ekki tekist á þetta skömmum tíma nema vegna þess að mikill fjöldi hæfileikaríks og einbeitts fólks var tilbúinn að vinna að þessu stundum dag og nótt. Fyrir það ber svo sannarlega að þakka.