144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á hrefnukjöti.

[15:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið.

Af hverju við ættum ekki að flytja inn hvalkjöt? Hvalir eru, alla vega sumar tegundir, í útrýmingarhættu og hvalveiðar eru nú kannski ekki þær veiðar sem eru beinlínis hæst skrifaðar meðal margra þjóða þannig að mér finnst að við þurfum að hugsa okkur verulega um hvort þetta séu viðskipti sem við teljum rétt að standa í.

Mig langar aðeins að fara aftur í hvalkjöt inni á íslenskum markaði. Er ekki gríðarlega nauðsynlegt, til þess að neytandinn viti hvaða vörur það er sem hann er að fá, að allar upprunamerkingar séu alveg pottþéttar þannig að neytandinn viti það úti í búð að þetta er ekki íslenskt hvalkjöt heldur norskt sem hann er að kaupa. Það sama gildir kannski ekki síður á veitingahúsum þar sem útlendingar eru jafnvel komnir til að kaupa íslenskt hvalkjöt, (Forseti hringir.) hvort þetta þurfi ekki allt saman að vera á hreinu og hvort ráðherrann muni ekki örugglega sjá til þess að þar verði öllum (Forseti hringir.) lögum framfylgt?