144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að bera boltann yfir þennan læk þar sem ég er áheyrnarfulltrúi eins og hann nefnir og get þar af leiðandi ekki flutt nefndarálitið. Ég er að sjálfsögðu hlynntur því eins og kom fram.

Stuttlega, eins og þetta hljómar með breytingartillögum, þá ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp um að móta stefnu um kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni og um réttindavernd netnotenda og leggja svo til nauðsynlegar lagabreytingar. Ef við förum yfir þetta: Það verður þá iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem skipar formann starfshópsins og í starfshópinn skipa þeir sem eru nefndir, þ.e. þessir stóru hagsmunaaðilar sem þurfa að koma að borðinu hvað varðar að skoða heildstætt hvernig á að skapa kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og réttindavernd.

Það er búið að vera ótrúlega gaman að finna meðbyrinn alls staðar þar sem málið hefur verið unnið, hjá hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur og í ráðuneytinu þar sem starfshópurinn starfaði og gerði greinargerð fyrir ráðherra sem þessi þingsályktunartillaga byggir á, þ.e. þeir hagsmunaaðilar sem komu þar að borðinu og hófu starfið. Einnig í þinginu þar sem þingmenn allra flokka á þingi eru meðflutningsmenn og í nefndinni þar sem við vorum að ræða nefndarálit sem styður málið. Allir styðja málið enda er það borðleggjandi. Það mun bæta hag allra Íslendinga að fara í þessa vinnu. Það er í rauninni kallað eftir því að við förum að skipa starfshóp. Það er starfshópur þeirra aðila sem þurfa að koma að borðinu. Hann verður skipaður núna til lengri tíma, ótakmarkaðs tíma. Það er eftir tillögum þeirra aðila eins og segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Alþjóðlegu ráðgjafarfyrirtækin McKinsey Global Institute og Boston Consulting Group hafa tekið saman fjölda skýrslna og rannsókna um hvað hafi virkað best hjá ríkjum við að nýta tækifæri til að auka hagsæld og hagvöxt með internetinu. Bæði ráðleggja þau ríkisstjórnum að læra af því sem best hefur virkað í öðrum löndum við að skapa kjörlendi fyrir internetið og benda á að sá árangur velti á viðvarandi endurmati á regluverki og stefnu stjórnvalda á því sviði.“

Það er sem sagt verið að kalla eftir starfshóp þeirra aðila sem þurfa að koma að borðinu til að skoða hvað best hefur reynst í heiminum, hvernig það er heimfært upp á íslenskan veruleika og leggja síðan tillögu fyrir ráðherra um að sú stefna verði innleidd og uppfærð reglulega.

Ráðherra mun síðan, eins og kemur hérna fram, leggja fram skýrslu árlega um vinnu starfshópsins þar sem gerð verður grein fyrir vinnu starfshópsins, tillögum hans til ráðherra, hvaða tillögum sé unnið að og hvernig starfinu miði áfram. Þingið fær því alltaf reglulega, árlega samantekt af þessu. Ráðherra fær á þriggja mánaða fresti tillögur til úrbóta.

Eins og kom fram í máli hv. þingmanns studdu nánast allir málið, enginn var á móti því. Persónuvernd sagði bara: Þetta varðar ekkert okkar svið, farið bara varlega með það, en það er ekkert í þingsályktunartillögunni sem við leggjumst gegn. Þeir sem að málinu koma styðja það allir og vilja taka þátt.

Með þessari breytingartillögu bætum við því við að Samtök verslunar og þjónustu fái að koma að borðinu. Bent var á að þjónustuaðilar þyrftu að geta komið að borðinu. Þeir gera það að vissu leyti, eins og Samtök leikjaframleiðenda, Samtök upplýsingatæknifyrirtækja, samtök gagnaveitna; þetta eru allt þjónustuaðilar. Okkur í nefndinni fannst ágætt að fleiri kæmu að borðinu og þá mundu Samtök verslunar og þjónustu skipa í starfshópinn líka. Sér í lagi vegna þess að þar eru minni aðilar sem veita náttúrlega þjónustu og geta meðal annars veitt internetþjónustu eða nýtt internetið til hagnýtingar fyrir sig.

Fram kemur í skýrslu McKinsey, sem vitnað er til og stuðst er við í þessari vinnu, að lítil og meðalstór fyrirtæki sem nýta sér internetið í miklum mæli vaxi tvöfalt hraðar, tvöfaldi útflutningstekjur sínar og ráði tvöfalt fleira starfsfólk. Þetta kemur fram í rannsókn sem McKinsey gerði á 4.800 litlum og meðalstórum fyrirtækjum í G8-ríkjunum auk fimm annarra ríkja sem samsvarar 70% af hagkerfi heimsins. Þetta er niðurstaðan. Það er ofboðslega mikil hagnýting í boði ef þau nota internetið í miklum mæli. Hlutfallið hrynur nánast alfarið ef fyrirtækin nota internetið í litlum mæli eða alls ekki. Það að hagnýta internetið skilar því gríðarlegum ábata fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Það er gott að Samtök verslunar og þjónustu fá líka að skipa í hópinn.

Vodafone vildi fá aðila sem hefði lögfræðimenntun á sviði fjarskipta skipaðan í hópinn. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að innanríkisráðuneytið muni áfram skipa slíkan aðila eins og í fyrri starfshópinn, ef ekki þá verður að bæta úr því. Við finnum lausn á því en ég geri ráð fyrir því. Eflaust verður þetta aðili sem er innan fjarskiptastofnunar eins og síðast. Við köllum bara eftir því; það er gott fyrirkomulag. Við þurfum að fá sérþekkingu þaðan í starfshópinn þannig að við köllum sérstaklega eftir því.

Annars þakka ég fyrir frábært samstarf og hlakka til að sjá starfshópinn verða að veruleika.