144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í dag lesum við í fréttum að fulltrúi Eflingar hafi verið rekinn af fundi sem pólskir ræstingastarfsmenn héldu með yfirmönnum ræstingafyrirtækis sem sér um þrif á Landspítalanum. Pólsku starfsmennirnir höfðu óskað eftir nærveru þessa fulltrúa Eflingar á fundinum, auk þess sem þeir voru með túlk með sér.

En það var sem sagt þannig að fulltrúar ræstingafyrirtækisins meinuðu stéttarfélagsfulltrúanum að taka þátt í fundinum. Það hefur verið mikil ólga meðal starfsmanna vegna álags og bágra kjara og þess vegna var boðað til fundarins. Um er að ræða 12 starfsmenn sem sjá um þrif á 26 þús. fermetra svæði á Landspítalanum. Enginn trúnaðarmaður er á staðnum og þetta er því í raun óskiljanlegt og mikil vanvirða við starfsfólkið sem þarna vinnur, sem þekkir rétt sinn kannski síður en margir sem eiga íslenska tungu að móðurmáli, og hafði óskað eftir því að fá fulltrúa stéttarfélagsins. Að neita þeim um fulltrúa er ekkert annað en brot á mannréttindum þeirra, enda gengu þeir af fundi ásamt fulltrúa Eflingar.

Það er líka rétt í þessu samhengi að vekja athygli á því að í kringum 73% þeirra sem starfa við ræstingar eru með dagvinnulaun sem eru undir 250 þús. kr. fyrir fullt starf og þetta er líka sá hópur sem hefur hækkað hvað minnst í launum á milli ára.

Nú heyrum við og sjáum að búið er að kaupa lúxusbíla fyrir ráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr að völdum fyrir á annan tug milljóna. Þá er ekki annað en vert að spyrja í framhaldinu um þá sparnaðarákvörðun sem tekin var í Stjórnarráðinu ekki alls fyrir löngu, þar sem konur starfa við ræstingar, hvort ríkisstjórnin ætlar að draga hana til baka — eða ætlar ríkisstjórnin að bjóða starfsfólki sínu (Forseti hringir.) upp á sambærilegar vinnuaðstæður og þessar pólsku ræstingakonur búa við?