144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú get ég að mestu leyti svarað hv. þingmanni með jái, ég eyddi dálitlum tíma í að útlista einmitt að ég teldi að það væri miklu traustari aðferð að lögfesta fyrst hina nýju eiginfjárviðmiðanir, láta vinna þá vinnu, komast að niðurstöðu þar og staðfesta markmið um eigið fé í bankaráði. Þá sæju menn hver staðan væri, þá gætu menn borið þær nýju viðmiðanir, eftir mat á áhættunni í bankanum og þörf hans fyrir rekstrarfé og allt það, saman við eigið féð eins og það stæði á þeim tíma. Þá kemur einfaldlega í ljós, þá er niðurstaða af þeim samanburði hvort grundvöllur er fyrir niðurfærslu og tekjufærslu hjá ríkinu.

Þannig að ég tel að margt bendi til að þetta sé ótímabært og svolítið óðagotslegt. Þess vegna hef ég ekki alveg keypt það sem hæstv. fjármálaráðherra reyndi að segja hér að tekjufærslan væri eitthvert aukaatriði, einhver (Forseti hringir.) hliðarafurð sem óvart kæmi með þessum nýju reglum. Mig grunar að það sé aðeins meira á ferðinni þar. (Gripið fram í.)