144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:59]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek til máls einfaldlega vegna þess að ég hafði haldið að hér væri verið að deila í einni nefnd um málsmeðferð, en það er ríkisstjórn á bak við. Það er verið að kasta sprengju, verið er að segja: Hér komum við, við þurfum ekkert annað, við höfum Framsóknarflokk sem fylgir okkur í hverju sem er, við þurfum ekkert á því að halda að tala við stjórnarandstöðu eða samfélagið, við gerum það sem okkur sýnist. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta er það sem við erum að mótmæla hér í dag. Búið var til af mikilli vandvirkni ferli um hvernig ætti að taka slíkar ákvarðanir á sínum tíma. Það var gert áður en farið var í rammaáætlunina. Því ferli var fylgt alveg sama hvað líður ævisögum út um allt. Við gætum tekið umræður um njósnir og annað sem lýsir (Gripið fram í.) ónefndum flokkum (Gripið fram í: Gerum það.) ef þið viljið, ef við ætlum að fara að taka það allt saman upp og dómsmál í kringum það.

Ég treysti því að ríkisstjórnin reyni nú að gera betur — eftir að hafa prófað þetta allt saman í sambandi við náttúruverndarlögin, að henda þeim öllum. Það náðist lausn í því.

Af hverju eru menn að kasta svona sprengjum hingað inn? Hv. þingmenn verða að svara því, (Forseti hringir.) er verið að klára þetta í jólaæðinu? Ætla menn að fara að taka hér veigamiklar ákvarðanir í jólaösinni á þessu þingi? (Forseti hringir.) Guð hjálpi okkur ef á að reyna það.