144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

skilgreining grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

[11:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt ef farið er af stað til að skilgreina grunnþjónustuna. Þetta er víða gert í nágrannalöndunum og þetta er líka gert mjög vel í Þýskalandi þar sem borgararnir, skattgreiðendur, vita hvað er í boði. Þá gerist líka annað. Fólk veit hver grunnþjónustan er og getur spurt: Fyrir hverju vil ég tryggja mig umfram það? Vil ég tryggja mig að því leytinu til að ég geti verið einn í herbergi? Það er kannski ekki grunnþjónusta eins og hún er skilgreind í Þýskalandi, en maður vill kannski fá einhverja aukna þjónustu. Það á að vera þannig að við fáum öll grunnþjónustu og að við vitum hver hún er. Það er bagaleg staða að við borgum himinháa skatta en vitum ekki hvað við fáum fyrir þá, sem er mikilvægasta atriðið. Margir sem hafa fengið krabbamein hafa áttað sig á því að þeir eru lentir í stórkostlegum fjárhagslegum vandamálum. Ég hef reynt að átta mig á þessu og hef nú gengið á milli tryggingafélaga og athugað með tryggingar. Tryggingafélög á Íslandi sinna þessu ekki vel vegna þess að þetta er allt svo óskýrt. Það er staðan.

Ég vil spyrja ráðherra aftur um það hvernig þessu starfi miði (Forseti hringir.) og hvort einhver tímalína sé komin (Forseti hringir.) um það hvenær við Íslendingar (Forseti hringir.) fáum að sjá hver raunveruleg grunnþjónusta er (Forseti hringir.) og hvort ekki sé líka tímabært að leiða það í lög eins og gert er í öðrum löndum.