144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er augljóslega nokkurt gagn í því að við fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfum rætt fundarstjórn forseta nokkuð ítrekað í dag vegna þess að ég vil minna hæstv. forseta á að það var ekki fyrr en nú eftir hlé að hæstv. forseti gerði grein fyrir því af forsetastóli að til stæði að halda þennan fund í dag. Ég óskaði eftir því að hann skýrði afstöðu sína til funda með þingflokksformönnum hér fyrr í dag, hvort til stæði að halda fundinn í dag, og forseti sagði nei, það stæði bara ekki til að halda þennan fund í dag, það stæði til að halda hann einhvern tímann þegar forseti væri búinn að kynna sér málin. Það er komið að því að það stendur til að halda fundinn í dag. Það er gott. Það er jákvætt. En ég bið hæstv. forseta að gæta að því þegar verið er að ræða það með einhverri þykkju að hér tali stjórnarandstæðingar um algjörlega óboðlega tillögu, að hæstv. forseti verður að halda því til haga hvar uppspretta þessara átaka er og hver það var sem setti hér allt í uppnám, (Forseti hringir.) hver byrjaði á því (Forseti hringir.) — hv. formaður atvinnuveganefndar. Hann er síðan bakkaður (Forseti hringir.) upp af fullum krafti (Forseti hringir.) af hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, hiklaust (Forseti hringir.) bakkaður upp (Forseti hringir.) með tilvísunum í (Forseti hringir.) jólabókaflóðið frá í fyrra.