144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fjáraukalög eru lög sem eru til komin af því að sett er í þau það sem ekki er hægt að sjá fyrir við undirbúning fjárlaga, það eru ófyrirséð og óvænt útgjöld sem við göngum frá í fjáraukalögum. Það hefur hins vegar ekki verið raunin á undanförnum árum og áratugum. Ég vil nota tækifærið og óska hæstv. ráðherra og ríkisstjórninni til hamingju með þessi lög því að hér stígum við skref til að koma á aga í ríkisfjármálum, mjög stórt skref. Forsendan fyrir stöðugleika sem við viljum öll er agi í ríkisfjármálum. Stöðugleikinn einkennist meðal annars af lágri verðbólgu.

Ég ætla að nota tækifærið og hrósa hv. stjórnarandstöðu fyrir að taka þátt í því og stíga þessi skref með okkur, en enn og aftur kemur popúlisminn fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Ég vona nú að menn geti sameinast um, sama hvar þeir standa í stjórnmálum, að koma hér á aga í ríkisfjármálum því að það er hagur allra.