144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það var alveg ljóst í desember að aukið fé vantaði í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Rétt rúmlega 200 millj. kr. voru settar í þann sjóð. Þá þegar glímdum við við mikla erfiðleika og skemmdir vegna átroðnings á ferðamannastöðum og á friðlýstum svæðum.

Hér er verið að bæta í, þetta er eitt af því sem var algjörlega fyrirséð og verið að klóra í bakkann eftir á. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir 148 milljónum í þennan sjóð. Stefnuleysi í þróun þessarar atvinnugreinar og hliðarverkunum sem fylgja auknum ferðamannastraumi hingað til lands — stefnuleysið og ráðaleysi þessarar ríkisstjórnar í málaflokknum er algjört og hrópandi.