144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla kannski ekki af þessu tilefni að fara í mjög mikla umræðu um verðtrygginguna eða af hverju hún er svona viðamikil á íslenskum lánamarkaði og hvernig við getum losnað við hana, en svona örstutt um það held ég að leiðin í átt að verðtryggingarlausu samfélagi liggi í gegnum það að koma á varanlegum stöðugleika í íslensku efnahagslífi, t.d. með betri gjaldmiðli en við notum, öflugri og fjölbreyttari útflutningsatvinnuvegum og aga í margræddum ríkisfjármálum. Þá held ég að verðbólga minnki og verðbólguvæntingar og þar með verði verðtrygging óþörf á lánamarkaði. Hún er náttúrlega fyrst og fremst einhvers konar leið til að dempa áhrif sveiflusamfélagsins á heimili í landinu með því að færa kúfana í verðbólguskotunum sífellt aftan á höfuðstólinn. Það er auðvitað ömurleg leið og slævir efnahagslífið. Ég er að mörgu leyti sammála því sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson sagði í ræðu áðan, hún dregur líka tennurnar úr ýmsum tólum sem við hefðum annars til þess að stýra efnahagslífinu. Það er til mikils að vinna að komast út úr þessu umhverfi.

Þetta álit EFTA-dómstólsins snýr ekki að því hvort verðtryggingin sé ólögleg eða ekki í samræmi við tilskipanir. Dómstóllinn hefur þegar úrskurðað að hún sé allt í lagi sem lánsform. Þetta snýr að einni spurningu, hvort miða megi við 0% verðbólgu á undirritunardegi lánasamnings, þegar neytandinn fær lánasamninginn í hendur og reynir að gera sér grein fyrir því hvað lánið kemur til með að kosta í heild sinni — má þá á verðtryggðu láni miða við að verðbólga sé 0%? Þetta er neytendamál og varðar aðallega, eins og ég skil það, spurninguna um það hver sé réttmæt upplýsingagjöf til neytandans, lántakandans. Hver á neytendaverndin að vera? Ég hef alveg fullan skilning á því að því sé haldið fram að það geti ekki verið réttmæt upplýsingagjöf til neytanda á lántökudegi að láta hann hafa plagg þar sem í kostnaðaráætlunum er gert ráð fyrir 0% verðbólgu. Það getur verið ágætishagfræði vegna þess að launin koma til með að hækka líka og ef þetta er fasteignaveðlán hækka eigurnar væntanlega líka þannig að það er kannski réttasta hagfræðin að gera ráð fyrir 0% verðbólgu. Þetta er samt skökk upplýsingagjöf.

Mér finnst alveg rétt hjá þeim sem eru að sækja þetta mál að halda því fram að myndin sem er dregin upp af láninu með þessu sé sú að þetta sé óverðtryggt lágvaxtalán. Ríkið og löggjafinn hefur í veigamiklum atriðum fallist á þessar röksemdir með því að breyta löggjöfinni um neytendalán og láta fasteignalán falla þar undir líka og viðurkennt að 0% verðbólga gefi ekki rétta mynd. Núna er það þannig í löggjöfinni að það á að miða við meðaltalsverðbólgu 12 mánaða. Ég verð að segja að það blasir við mér, sem lántakanda, neytanda og borgara í þessu landi, sem miklu heilbrigðara. Núna erum við með lánamarkað þar sem við getum borið saman þegar við förum í bankann óverðtryggð lán á 7% vöxtum og verðtryggð lán þar sem rökstudd verðbólgutala er sett inn í útreikningana. Við getum borið saman jafngreiðslulán og þar fram eftir götunum. Þetta er mikilvægt. Ég held að þetta leiði til þess að neytendur taki upplýstari ákvarðanir. Þeir taka jafnvel ákvarðanir um að blanda saman við íbúðakaup ólíkum lánsformum, sjá að verðtryggt lán kostar vissulega mikið en það er með lægri afborgunum og að óverðtryggt lán greiðist niður og kostar minna en er hins vegar með hærri afborgunum. Lántakendur geta vegið og metið þessa þætti.

Mér finnst EFTA-dómstóllinn vera að segja að út frá neytendasjónarmiðum hafi svona umhverfi ekki verið tryggt áður fyrr og þess vegna hafi þetta verið ósanngjarnir lánasamningar. Mér fyndist ekki réttlátt ef þetta færi á versta veg og það þyrfti að endurreikna alla verðtryggða lánasamninga á Íslandi og taka verðbólguna af þeim. Það yrði fyrst og fremst alveg stórbrotin eignatilfærsla, miklu meiri en sú sem ríkisstjórnin hefur þegar ráðist í, eignatilfærsla frá skattborgurunum, grunnstoðum samfélagsins og lífeyriskerfinu til þeirra sem tóku verðtryggð lán. Ég mundi ekki kalla það uppskrift að réttlátu samfélagi í upphafi 21. aldarinnar.

Ég held hins vegar að það verði að taka þetta alvarlega. Þetta er ekki léttvægt. Við eigum að læra af dómunum í gengistryggðu málunum að margir sáu ekki fyrir að það mundi fara alveg svona og héldu að það væri einhver lagabókstafur fyrir gengistryggðum lánum, en íslenskir dómstólar úrskurðuðu á annan veg.

Nokkur atriði gera það að verkum að maður ætti alveg að búast við því að íslenskir dómstólar, þótt ekki sé meira sagt, gætu komist að þeirri niðurstöðu að það hefði verið ólöglegt eða ósanngjarnt og ekki rétt út frá neytendasjónarmiðum að miða við 0%. Í fyrsta lagi hefur samfélagið einkennst á undanförnum árum af gífurlegri reiði út af verðtryggðum lánum þannig að ef þorri almennings má teljast ágætlega upplýstur og forsjáll neytandi er samt mjög víðtæk reiði meðal þessa hóps út af áhrifum verðtryggingar. Því mætti halda fram að almennur og vel upplýstur neytandi hefði vissulega áttað sig á því að hér væri verðtrygging en hann hefði ekki áttað sig á því hvað hún hefði í för með sér. Það hefði því verið rangt að segja þessum neytanda að verðbólga gæti verið 0%. Ríkið, Alþingi, hefur breytt þessu umhverfi og þar með að hluta til viðurkennt þessi sjónarmið. Það finnst mér svolítið veigamikið. Svo er ríkisvaldið á fullu núna að færa til fjármuni og bæta þeim heimilum umrædda verðbólgu og verðtryggingu. Þar með finnst mér það vera svolítið að viðurkenna (Forseti hringir.) þau sjónarmið að heimilin hafi ekki verið nægilega vel upplýst.