144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins á spurningum um verðtryggingu, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Álit EFTA-dómstólsins snýst um neytendavernd. Allt þetta mál snýst um hagsmunaárekstra stjórnvalda sem hindrar þau í að sinna eftir bestu getu réttindagæslu fyrir neytendur. Ef þetta fer eins og margir telja eftir áliti EFTA-dómstólsins sem segir, með leyfi forseta:

„… þegar lánssamningur er bundinn við vísitölu neysluverðs, samrýmist það ekki tilskipuninni“ — 87/102/EBE — „að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%.“

Þetta segir EFTA-dómstóllinn núna, eftirlitsstofnunin ESA, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Neytendastofa. Það er ekki heimilt að hafa þetta svona í lánasamningum. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á þarf að miða við verðbólgu síðustu 12 mánaða þó að hún hafi bara verið 1% eins og er í lánasamningum í dag þegar verðbólga er 1%. Lögunum var breytt 2013. Jafnvel þó að verðbólgan væri 1% þá væri hægt að sjá eðli verðbólgunnar í verðinu sem er borgað fyrir lánið sem er tekið — miðað við 0% verðbólgu sést ekki eðli verðtryggingarinnar, hvernig verðbólgan sést í verðtryggðu neytendaláni, það sést ekki. Um leið og 1% verðbólga er sett inn fer það að sjást.

Ég get alveg sagt það að ég hef ekki tekið lán og ekki skoðað þetta ítarlega, en þegar ég fór að gera það að einhverju leyti nýlega þá trúði ég ekki að verðtryggingin væri svona, að hún skilaði sér svona inn í lánasamninga á Íslandi. Þetta hefur ekki verið gert alveg skýrt fyrir neytendum. Það tók mig langan tíma að átta mig á þessu. Ég trúði ekki að þetta gæti verið svona.

Eins og segir hérna má þetta ekki vera svona. Það er skiljanlegt vegna þess að neytandinn sér annars ekki eðli verðtryggingarinnar í lánasamningnum. Hann sér ekki hvert raunverulegt verð verður. Hann sér ekki eðli breytingarinnar á verðið með verðtryggingu.

Hvað meina ég þegar ég segi að hagsmunaárekstrar stjórnvalda hindri stjórnvöld í því að sinna eftir bestu getu réttargæslu fyrir neytendur í þessu máli? Það er búið að margbenda stjórnvöldum, núverandi og þeim sem sátu síðast, á ólögmæti þessa og að neytendavernd sé mjög ábótavant, eins og núna hefur komið fram í áliti EFTA-dómstólsins. Það er margbúið að benda stjórnvöldum á þetta. Ég hef margoft gert það í þessum sal. Ráðamenn vissu þetta og hafa vitað þetta lengi. Hvers vegna beittu þeir ekki heimildum í t.d. lögum um lögbann og dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda þar sem stjórnvöld höfðu þar til nýlega, þar til núna í haust, rétt til þess að höfða dómsmál, til þess að skera úr um álitamál eins og þetta, um heildarhagsmuni neytenda sem þetta klárlega er? Stjórnvöld fóru ekki af stað. Þau hefðu getað farið af stað. Núverandi stjórnvöld hefðu getað farið af stað strax í upphafi kjörtímabilsins eins og bent var á að þau skyldu gera. Ég margbenti hæstv. innanríkisráðherra á það.

Hvað gerist núna þegar við stöndum frammi fyrir niðurstöðunni í þessu máli og búið er að fara í gríðarlega vegferð til að leiðrétta forsendubrest, hinn sannarlega forsendubrest hrunsins, á verðtryggðum húsnæðislánum þar sem fólk heldur heimili? Nú stöndum við frammi fyrir því að forsendubrestinum verður mögulega ýtt út af borðinu af Hæstarétti og vel það. Þá hefði betur verið heima setið en af stað farið. Stjórnvöld hefðu betur hlustað á þá í samfélaginu sem þrábentu á að höfða þessi dómsmál og fá úr þessu skorið.

Ég ætla að vitna í hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði í ræðu rétt áðan að óvissuna þyrfti að leiða til lykta. Þetta er óvissa sem þarf að leiða til lykta en þetta er óvissa sem hefur verið til staðar og hefði þurft að leiða til lykta allt þetta kjörtímabil. Það var ekki gert. Frekar var farið í skuldaleiðréttinguna og þegar nauðungarsölur voru aftur stöðvaðar nýlega, sem var mjög gott að var gert síðustu jól fyrir alla sem voru með verðtryggð neytendalán, var það bara gert fyrir þá sem sóttu um leiðréttinguna. Ég benti á við meðferð þess máls að það væru líka aðrir sem þyrftu að fá þessa stöðvun því að við stæðum frammi fyrir dómsmáli Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Íbúðalánasjóði sem verður dómtekið í héraðsdómi 8. desember. Ég benti á að þetta álit EFTA-dómstólsins væri að koma og að við fengjum lyktir í þetta mál fyrir Hæstarétti um mitt næsta ár. Samt sem áður var bara þeim heimilum sem höfðu sótt um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar veitt skjól. Ég var með breytingartillögu um að þetta skyldi ná yfir alla sem væru með verðtryggð neytendalán, sem eru öll húsnæðislán frá 2001. Við skulum ekki láta Seðlabankann slá ryki í augun á okkur með það. Þar segja menn: Þetta varðar ekki fasteignalán. — Já, það er alveg rétt, akkúrat þetta mál er snýr að áliti EFTA-dómstólsins varðar ekki fasteignalán, en innan neytendalána felast öll fasteignalán frá 2001. Þegar efri mörk neytendalána voru tekin út féllu þar af leiðandi stærri lán undir neytendalán, m.a. húsnæðislán.

Ég mun í dag leggja aftur fram frumvarp frá síðasta þingi, þ.e. breytt að því leytinu til að það nær yfir alla þá sem eru núna í óvissu með neytendalán sín, um að nauðungarsala hjá þeim verði líka stöðvuð rétt eins og nauðungarsölur voru stöðvaðar hjá þeim sem þiggja skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Þeir gætu náð endum saman og bjargað sér fyrir horn og losnað við að verða fyrir nauðungarsölu á heimili sínu. Það sama á vissulega að gilda um þá sem gætu bjargað sér fyrir horn núna ef dómurinn fellur þannig um mitt næsta ár, eins og EFTA-dómstóllinn bendir á, að þetta séu ólögmætir skilmálar. (Forseti hringir.)