144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

almannatryggingar.

322. mál
[17:33]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum stöðugt að íhuga það hvernig við getum lagað stöðu allra hópa í samfélaginu. Ég ræddi það sérstaklega í framsöguræðu minni sem sneri að núverandi 56. gr. laganna, sem er 16. gr. frumvarpsins, að 2. mgr. heldur sér. Þar er verið að tala um að „Tryggingastofnunin […] getur þó ákveðið að greiða bæturnar, eða hluta af þeim, maka hans og börnum eða einhverjum þriðja aðila sem sér um að bæturnar komi þeim að sem mestu gagni.“ Það er einmitt hugsunin nákvæmlega með þessu að ekki sé verið að gera einhverja viðbótarrefsingu hvað þetta varðar.

Aftur á móti vil ég líka benda á að það er alltaf ákveðinn aðdragandi að því að fólk sé dæmt til fangelsisvistar. Það sama gildir kannski ekki um gæsluvarðhald. Hins vegar er hér verið að leggja áherslu á að lífeyrisþegar eiga ekki að vera í annarri stöðu en fólk sem er á vinnumarkaðnum þegar kemur að því að afplána refsingu í fangelsi, sæta gæsluvarðhaldi eða á annan hátt er úrskurðað til dvalar á stofnun. Og líka, eins og ég nefndi, að þetta eru reglurnar þegar kemur að öldruðum sem eru vistaðir á hjúkrunarheimilum. Það er mjög nákvæmlega tilgreint í lögum hver sú þjónusta er sem fangar eiga rétt á í fangelsi. Ég veit að innanríkisráðherra hefur í hyggju að koma fram með frumvarp sem snýr að þessu þar sem er einmitt verið að efla enn frekar réttindi fanga og bæta lagaumhverfið þar til þess að þetta sé betrunarvist, sem eru áherslur okkar Íslendinga þegar kemur að fangelsisvist.