144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það vakti sérstaka athygli mína í gær að fréttir bárust af því að Landsbanki Íslands hefði selt þriðjungshlut sinn í fyrirtækinu Borgun. Þetta er gert að umtalsefni í útgáfu Kjarnans í morgun en þar kemur fram að eitthvert fyrirtæki sem heitir Eignarhaldsfélag Borgunar slf. hefur keypt 31,2% í fyrirtækinu Borgun og stofnfé fyrirtækisins sem fær að kaupa þennan hlut er 500 þús. kr. Það er svo með félagið Borgun að það hefur skilað hagnaði öll starfsár sín, en þar sem Landsbankinn átti þennan hlut og Landsbankinn er að 98% í eigu ríkisins þá er í raun um ríkiseign að ræða sem verið er að selja í þessu tilfelli.

Þessi sala og hvernig að henni er staðið hlýtur að kalla á sérstaka athugun á því hvers vegna sá hlutur fór ekki í opið söluferli eða hvers vegna ekki var farið með hann eins og á að fara með eignir ríkisins, þ.e. að hann hefði verið boðinn til sölu og óskað eftir tilboðum og síðan hefði hæsta eða verðmætasta tilboði verið tekið. Mér þykir þetta nokkuð alvarleg tíðindi og það læðast að manni gamlir draugar, ég hélt að menn hefðu lært eitthvað fyrir nokkrum árum en svo virðist ekki vera. Það er því full þörf á að fara dýpra í þetta mál og spyrjast fyrir um það hvers vegna söluferli á hlut Landsbankans í Borgun var með þessum hætti.