144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er deginum ljósara að framganga formanns atvinnuveganefndar, hv. þm. Jóns Gunnarssonar, er orðin að sérstöku vandamáli í þinginu. Það sem gerðist í atvinnuveganefnd og málatilbúnaðurinn þar er þeim mun fráleitara sem tími gefst til að skoða það betur. Það er algerlega ljóst að tillöguflutningur af því tagi sem formaðurinn hefur lagt fram gengur þvert gegn lögum og leikreglum sem Alþingi sjálft hefur ákveðið. Á Alþingi geta menn ekki komið þannig fram. Þeir verða að sýna störfum sínum, lagasetningu, vinnu og verkferlum sem hér er búið að móta þá lágmarksvirðingu að þeir a.m.k. viti af þeim. Mér heyrist menn tala hérna af þvílíkri vanþekkingu á því sem búið er að leiða í lög og ganga frá sem verklagi að það hálfa væri nóg, er eiginlega alveg ótrúlegt.

Menn segja hér gjarnan að það sé misskilningur hjá verkefnisstjórn að henni komi við í mati á röðun virkjunarkosta hvort laxastofninn í Þjórsá lifi eða deyi ef þar verður virkjað. Fyrst eigi að ákveða að virkja, svo eigi að fara í umhverfismat og svo eigi bara að fjalla um mótvægisaðgerðir til að bjarga einhverju af laxinum. Þetta er þvílíkur hyldýpismisskilningur að það hálfa væri nóg. Verkefnisstjórnin rökstyður einmitt mjög vel með faglegum rökum af hverju ekki sé tímabært að ákveða endanlega röðun a.m.k. tveggja neðri virkjananna í Þjórsá, við Urriðafoss og Holtavirkjun. Það er vegna þess að í Þjórsá er stærsti villti laxastofn á Íslandi og sennilega stærsti villti laxastofn við norðvestanvert Atlantshaf. Það veiddust yfir 10 þúsund laxar á vatnasviði Þjórsár í fyrra og var áin þó bólgin af laxi þegar veiðitímanum lauk. Þúsundir sjóbirtinga ganga úr sjó og upp á vatnasvið Þjórsár síðsumars og á haustin. Halda menn að það sé bara hægt að yppa öxlum yfir þessu og láta sem ekkert sé (Gripið fram í.) þegar góð og gild rök standa til að (Forseti hringir.) rannsaka þessi mál miklu betur og velta því fyrir sér hvað menn væru að fara út í ef þeir yfir höfuð láta sér detta í hug að virkja t.d. við Urriðafoss eða Holtavirkjun?