144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í upphafi þings sem hófst að þessu sinni þremur vikum fyrr en áður stærði meiri hlutinn sig mikið af því að hafa lagt samhliða fram fjárlaga- og tekjufrumvörpin sem er vel — en síðan hefur lítið gerst.

Fundadagar sem voru hér mánudag, þriðjudag og miðvikudag voru mjög illa nýttir hjá fjárlaganefnd. Það var eiginlega bara fundafall meira og minna vegna þess að ríkisstjórnin var ekki tilbúin með tillögur sínar. Þær litu svo loksins dagsins ljós en hv. formaður fjárlaganefndar hafði helst ekki viljað leggja þær fram fyrr en búið væri að setja þær saman við tillögur meiri hluta fjárlaganefndar. Ekki gekk það saman og líka má spyrja sig hvort það eigi að leggja slíkt fram í einum pakka eða hvort það á að vera klár aðgreining þar á milli.

Þegar við hugsum tíu ár aftur í tímann hefur aldrei liðið svona langt á milli umræðna. 84 dagar verða það ef 2. umr. verður á þriðjudaginn. Staðan er sem sagt sú að það er kominn föstudagur 28. nóvember og við höfum ekki enn fengið að sjá tillögur meiri hluta fjárlaganefndar þannig að minni hlutinn á eftir að skrifa nefndarálit sitt, og það er helgi fram undan, til að geta brugðist við því sem þar kemur fram. Þetta er mjög bagalegt og þetta eru ekki góð vinnubrögð. Í ljósi þess hvað þingið byrjaði miklu fyrr ætti þetta að vera löngu komið inn í þing og umræðan hefði átt að geta hafist á réttum tíma.

Þá veltir maður líka fyrir sér hvað standi í ríkisstjórninni. Er það ágreiningur á milli flokka og um hvað er þá sá ágreiningur, heilbrigðismálin (Forseti hringir.) eða er hann um skólamálin? Það verður áhugavert að sjá. Ég bind vonir við að tillögur meiri hluta nefndarinnar verði lýsandi hvað þetta varðar.