144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt andrúmsloft í þessum þingsal. (Gripið fram í: Já.) Ég er svo heppinn að vera alinn upp með þannig fólki að það er nánast sama hvað hefur verið þungskýjað, það er alltaf hægt að sjá ljósan blett á himninum. Hér inni er fólk sem ég er sannfærður um að sér ekki ljósglætu á himni, alveg sama hvað er heiðskírt. (BirgJ: … sjálfan þig?)

(Forseti (EKG): Ég bið hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég ætla að tala á björtu nótunum. Í kjölfar batnandi afkomu og bjartari þjóðhagsspár hefur myndast nokkurt svigrúm fyrir sérstök áhugamál ríkisstjórnarinnar. Ráðstöfunartekjur hækka, ekki þrætið þið fyrir það, vísitala neysluverðs lækkar og aukin framlög eru til heilbrigðis- og menntamála. Afnám vörugjalda og lækkun efra þreps virðisaukaskattskerfis leiðir til umtalsverðrar lækkunar á neysluútgjöldum heimilanna þrátt fyrir hækkun neðra þrepsins. Skattkerfisbreytingar munu tryggja að allir tekjuhópar koma fjárhagslega betur út. Samanlögð áhrif hækkunar á ráðstöfunartekjur heimilanna nema rúmum 6 milljörðum kr.

Lyfjakostnaður einstaklinga minnkar, heilbrigðiskerfið er styrkt enn frekar og framlög til Landspítalans hafa aldrei verið meiri. Framlög til menntunarmála aukast um 767 milljónir. Svona mætti lengi telja. Húsaleigubætur eru auknar til að koma til móts við tekjulægstu leigjendur á húsnæðismarkaði. Verður 400 millj. kr. varið til þeirra til að bæta stöðu þeirra enn meira.

Þessi batamerki koma ekki af sjálfu sér. Þetta kemur af því að við nýtum auðlindir okkar. Þetta snýst um að nýta auðlindirnar og ég hvet okkur til að halda því áfram. (Gripið fram í.) Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna, skilar okkur góðum hagnaði. Landsvirkjun hefur á síðustu missirum greitt niður skuldir um 50 milljarða (Forseti hringir.) og fjárfest annað eins til að halda uppi velmegun og missa ekki fólk úr landi. Það þarf að halda áfram að byggja upp og nýta auðlindirnar, öðruvísi byggjum við ekki nýjan Landspítala.