144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

kjaradeila lækna og ríkisins.

[13:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hér í dag eru hvorki hæstv. fjármálaráðherra né hæstv. heilbrigðisráðherra en í ljósi alvöru málsins tel ég þá rétt að beina spurningum mínum til hæstv. forsætisráðherra.

Verkfall lækna hefur nú staðið yfir í á sjöttu viku og þegar haft gríðarleg áhrif á heilbrigðisþjónustu í landinu. Biðlistar lengjast vegna verkfallsins og nógu langir voru þeir fyrir. Heilbrigðiskerfið er þegar undir miklu álagi þannig að þegar deilan loksins leysist munu þeir sjúklingar sem ekki eru allra veikastir þurfa að bíða eftir aðgerðum vikum og mánuðum saman. Með hverjum deginum fjölgar þeim læknum í verkfalli sem segja upp störfum sínum. Áhrif verkfallsins verða því alvarlegri með hverjum deginum sem líður. Sjúklingar bíða í óvissu um lækningu eða meðferð og fyrirsjáanlegur er landflótti lækna sem grefur undan heilbrigðiskerfinu til framtíðar. Það getur reynst nánast ógjörningur að byggja það upp aftur og tilkostnaðurinn verður margfaldur miðað við kostnaðinn af því að ná samningum við lækna.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hyggst forsætisráðherra beita sér fyrir því að kjaradeila ríkisins við lækna leysist sem fyrst, helst í þessari viku?