144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson ætti að hafa lært af reynslunni að einu skiptin sem hann er í sigurliði er þegar hann slæst með mér, eins og dæmi liðinnar viku sýndu hér í þingsölum. Mér fannst hv. þingmaður ekki fara fyrir sigurliði þegar hann kynnti þær breytingartillögur sem liggja nú fyrir til umræðu. Það sem stóð upp úr og eiginlega rak mig í rogastans var að heyra hv. þingmann lýsa fullkominni uppgjöf fyrir hönd Framsóknarflokksins gagnvart Sjálfstæðisflokknum að því er varðar matarskattinn. Ég man ekki betur en að einir níu hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafi staðið í þessum stól eða í kastljósi fjölmiðlanna og sagt algjörlega skýrt að þeir mundu aldrei láta það yfir sig ganga að matarskatturinn yrði hækkaður úr 7%. Fyrir því færðu þeir tvenns konar rök. Sumir bentu eðlilega á þá staðreynd að það yrði langerfiðast fyrir þá sem lægstar tekjur hafa. Aðrir, trúir sínum uppruna, og ég skildi þá mætavel, bentu líka á það að fyrirvaralaus hækkun af þessu tagi væri auðvitað líka reiðarslag fyrir bændur. Sú var tíðin að Framsóknarflokknum var annt um hag bænda. Það sem mér finnst hins vegar kannski sárgrætilegast í þessu er að Framsóknarflokkurinn gefst upp fyrir Sjálfstæðisflokknum í þessu máli örfáum dögum eftir að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lýsir því yfir í fjölmiðlum að þessi hækkun sé einungis áfangi að því síðar á kjörtímabilinu að hækka þrepið upp í 14%. Hvað gerir Framsóknarflokkurinn þá? Hverjir voru það sem á sínum tíma börðust mest fyrir því að búa til lægra virðisaukaskattsþrep til þess að vernda bændur en ekki síst til þess að vernda láglaunafólk? Það var Framsóknarflokkurinn og ég spyr: Hvernig líður hv. þm. Frosta Sigurjónssyni núna þegar hann veit að það er verið að beita honum fyrir æki Sjálfstæðisflokksins í þessu máli? Getur hann upplýst þingheim um það hvenær hann mun koma og knébeygja sig aftur fyrir 14% hækkun?