144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Við urðum sammála um það í minni hlutanum að sameinast um álit og reifa helstu atriði sem við erum sammála um í gagnrýni á þessar tillögur og í afstöðu til hugmynda meiri hlutans. Einstaka þættir þessa máls hafa líka batnað milli umræðna og vert að geta þess. Síðan munum við gera grein fyrir áherslum okkar, hver og einn, í okkar máli. Ég mun fara aðeins yfir nefndarálitið og ræða málið almennt í þessari ræðu.

Fyrst af öllu, virðulegi forseti, er það auðvitað nokkur áfangi í sögu íslenskra stjórnmála að ná því afreki sem Framsóknarflokkurinn hefur nú náð, að leggjast gegn hækkun virðisaukaskatts í 12%, lýsa yfir sigri með því að hann fari í 11% en boða jafnframt að hann fari í 14% á næsta ári. Það er dálítið athyglisverður hringsnúningur. Ásetningur ríkisstjórnarmeirihlutans og fjármálaráðherrans er skýr í fjárlagafrumvarpi, að áfram verði unnið að því að draga úr bili milli skattþrepanna. Þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn telji sig hafa unnið mikinn sigur núna með því að færa 12% niður í 11% þá liggur þessi ásetningur fyrir óbreyttur. Það er rakið í fjárlagafrumvarpi að ætlunin sé að áfram verði haldið með hækkun upp í 14% á árinu 2016.

Ekkert hefur komið fram frá ríkisstjórnarmeirihlutanum um það hvort menn eru búnir að skipta um skoðun í þessu efni, hvort menn muni láta nú nótt sem nemur eða halda áfram að hækka neðra þrepið. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn, sem virðist nú vera í hlutverki ökumannsins í þessu máli, hefur ekki kveðið upp úr um það þá er holur hljómur í svardögum Framsóknarflokksins um mikinn árangur með því að hafa náð að lækka matarskattinn úr 12% í 11% því að í upphafi lögðust þeir gegn breytingunni í heild en fallast nú á hana með jafn lítilli tilhliðrun og raun ber vitni.

Virðulegi forseti. Vandamálið við þetta mál eins og það er lagt upp og útfært er að það eykur flækjustig í virðisaukaskattskerfinu, það nær ekki hinu yfirlýsta markmiði að draga umtalsvert úr bili milli skattþrepa, flytur til flækjustig í skattkerfinu, lætur kostnað af lækkun og niðurfellingu vörugjalda falla af fullum þunga á viðkvæmustu vörur lágtekjufólks, sem eru matvæli.

Við sjáum ekki hinn mikla eðlismun á hækkun á matarskatti úr 7% í 11% og 7% í 12%. Það liggur fyrir eftir sem áður að hækkunin mun leggjast þyngst á þá sem eru með háan reikning vegna matarkaupa. Framan af hausti stóðum við hér í allmiklum deilum við ríkisstjórnarflokkana þegar þeir héldu því statt og stöðugt fram að hvítt væri svart og að hækkun á matarskatti bitnaði ekki þyngra á lágtekjufólki en öðrum. Síðan hafa komið fram greiningar frá Alþýðusambandinu, BSRB og Stofnun um fjármálalæsi sem hafa sýnt fram á þetta alveg skýrt. Mikilvægust var rannsóknin frá Stofnun um fjármálalæsi sem byggði beinlínis á 10 þúsund heimilum sem nota bókhaldskerfið Meniga. Niðurstöður hennar sýndu svart á hvítu að matarútgjöld eru miklu hærri hluti útgjalda lágtekjuheimila en þeirra sem meira hafa á milli handanna.

Það var athyglisvert að eftir langt þvarg um þennan þátt málsins sneri ríkisstjórnarmeirihlutinn við blaðinu og gafst upp, játaði sig sigraðan og viðurkenndi að þessi breyting legðist þyngra á fólk eftir því sem það hefði minna á milli handanna vegna þess að matvælakaup væru þá ríkari þáttur í ráðstöfunartekjum.

Hin upphaflega grundvallarforsenda hækkunarinnar í 12% var, eins og ég rakti hér áðan, að verið væri að draga úr bili milli virðisaukaskattsþrepanna. Ekkert hefur komið fram um það hver framtíðarætlan ríkisstjórnarinnar er. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hvergi snúið til baka frá þeirri yfirlýsingu sem hann gaf í fjárlagafrumvarpinu að markmiðið væri að hækka neðra þrep virðisaukaskatts í 14% á næsta ári. Við hljótum þess vegna að spyrja: Hvert er endatakmarkið? Það hefur grundvallaráhrif á mat á öllum mótvægisaðgerðum hvort endatakmarkið er 14% eða 11%, eins og nú er orðið.

Við meðferð málsins kom fram hversu alvarleg áhrif þessi breyting mundi einkanlega hafa á bókaútgáfu í landinu. Öll menning hækkar en alvarlegust eru áhrif á bókaútgáfu í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem bókaútgáfa á íslenskri tungu er í. Hún hefur farið versnandi með hverju ári. Útgáfa ýmissa tegunda bóka, eins og barnabóka, einkanlega myndskreyttra barnabóka, fræðibóka og útgáfu þýddra skáldverka á íslensku, hefur mjög átt undir högg að sækja. Það er alveg ljóst af þeim skýringum sem við fengum frá hagsmunaaðilum innan bókageirans að þessi breyting mundi hafa mjög slæm áhrif á útgáfu þessara bóka.

Það er mjög athyglisvert að sjá hér enn eitt dæmið um það að þessi ríkisstjórn hefur áhuga á því að búa til alls konar stefnu í menntamálum en fjárlög og fjárlagatengdar aðgerðir styðja ekki við þá stefnu. Áherslan á læsi er hjákátleg í ljósi þess að nú er verið að gera útgáfu á íslenskum bókum dýrari og erfiðari og jafnvel er verið að gera slíkar breytingar að útgáfa barnabóka hættir að vera arðbær.

Mörg fjölmennari ríki en okkar sem búa á stærra málsvæði, hafa farið þá leið að fella algjörlega niður skatt á bækur. Það er kostur sem Íslendingar verða að fara að velta fyrir sér af fullri alvöru. Sérstaða íslenskunnar og stærð málsvæðisins hlýtur að kalla á að við séum með framsæknustu lausnir að þessu leyti í alþjóðlegum samanburði

Milli umræðna komu tillögur frá meiri hlutanum um breikkun skattstofns virðisaukaskatts, sem við tökum almennt séð vel í. Það varð ljóst að verið var að reyna að fella ýmsa þætti ferðaþjónustu undir neðra þrep virðisaukaskattsins. Það er æskilegt að sem flest atvinnustarfsemi sé virðisaukaskattsskyld og að einungis skýr rök séu fyrir því ef hún á ekki að vera það. Meiri hlutinn og ríkisstjórnin lenda hins vegar enn og aftur í miklum vandræðum þegar kemur að útfærslu á þessari breytingu. Lagt er til að leggja virðisaukaskatt á fólksflutninga að almenningssamgöngum undanskyldum. Það skapar alls konar afmörkunarvandamál. Það var til dæmis mikið rætt um það í nefndinni hvernig haga bæri innsköttun vegna kaupa og viðhalds á rútubifreið sem nýtt er í skólaakstur að vetri til en þjónustu við ferðamenn á sumrin. Allir sjá flækjustigið sem atvinnurekendum er búið við þessar aðstæður og allir sjá undanskotshættuna og -freistinguna.

Það var líka farin sú leið að leggja virðisaukaskatt á baðstaði og gufubaðsstofur og heilsulindir, en ekki sundlaugar. Þar kom líka í ljós að afmörkunarvandinn verður flókinn. Við heyrðum langar útlistanir á muninum á lokuðu vatnskerfi þar sem klór er notaður og svo gegnumstreymiskerfi þar sem vatn rennur. Þingheimi til fróðleiks þá er almenna skilgreiningarviðmiðið um sundstað þannig að þar sé lokað klórkerfi en ekki þegar baðstaðir eiga í hlut. Á þessu eru hins vegar fjölmargar undantekningar og dæmi eru um baðstaði sem flokkast sem sundstaðir vegna þess að þar er sundlaug. Þannig tekst ríkisstjórnarmeirihlutanum aldeilis ekki að draga úr flækjustiginu í virðisaukaskattskerfinu heldur býr til nýja flækju.

Þetta frumvarp var lagt fram 9. september sl. og flestallar athugasemdir lágu fyrir í umsögnum um miðjan október. Það verklag sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur haft við vinnslu fjárlaga og fjárlagatengdra frumvarpa er Íslandsmet í sleifarlagi. Aldrei áður í þingsögunni hefur fjárlagafrumvarp verið lagt jafn snemma fram og aldrei hefur liðið jafn langt á milli 1. og 2. umr. Það á ekki bara við um fjárlögin heldur líka tekjufrumvörpin. Þegar maður horfir til sögunnar og sérstaklega nýliðinnar sögu þá er það náttúrlega einhvers konar afrek að ríkisstjórn með rúman þingmeirihluta, sem tekur við svo góðu búi að það er jöfnuður í ríkisfjármálum, skuli láta fjárlagagerð flækjast fyrir sér ár eftir ár, eins og raun ber vitni. Það væri hægt að fyrirgefa ýmislegt í þessu efni ef ríkisstjórnin ynni vel, nýtti tímann vel til að vinna málin en því er ekki fyrir að fara.

Samtök atvinnulífsins lögðu fram athyglisverðar hugmyndir fyrir nefndina, um frekari breikkun skattstofna, um betri mótvægisaðgerðir, um lækkun á fatnaði og skóm í neðra þrep, ýmis atriði af þessum toga. Það var athyglisvert að ríkisstjórnin hafði aldrei viljað eiga við þá orðastað um þetta verkefni. Það hlýtur að vera einhvers konar met þegar ríkisstjórn í landinu hefur lengri tíma en nokkur önnur ríkisstjórn í Íslandssögunni til meðferðar fjárlaga- og tekjufrumvarpa og breytinga á virðisaukaskatti og hirðir ekki einu sinni um að eiga efnislegt samtal við aðila vinnumarkaðarins um útfærslur að þessu leyti. Það er erfitt að finna hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu við slíkt verklag. Ég held að það hefði verið tilraunarinnar virði og ferðarinnar virði fyrir ríkisstjórnina að setjast yfir þetta mál með aðilum vinnumarkaðarins. Mér fannst margt af því sem Samtök atvinnulífsins settu fram athyglisvert. Það er með ólíkindum að þeir hafi ekki fengið viðtalsbil hjá ríkisstjórninni um athyglisverðar hugmyndir sínar.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið nokkra þætti þessa máls. Við komum þá að þungamiðju málsins sem er niðurfelling vörugjaldanna, hækkun matarskattsins og niðurfelling sykurskatts. Ég vil fyrst taka það skýrt fram að af hálfu okkar í Samfylkingunni er enginn ágreiningur um mikilvægi þess að vörugjöld séu felld niður. Við erum sammála því að það sé mikilvægt markmið en við teljum fullkomlega óeðlilegt að fjármagna þá lækkun með auknum álögum á matvöru sem er mikilvægasti og viðkvæmasti útgjaldaliður venjulegra heimila. Það er öfugsnúið réttlæti vegna þess að vörugjöldin leggjast þyngst á vörur sem fólk kaupir sjaldan og getur í mörgum tilvikum frestað kaupum á. Þó svo að það sé alveg rétt að vaskur, klósett og þvottavél sé í hverri íbúð þá er veltuhraði slíkra hluta minni hjá lágtekjufólki en þeim betur stæðu og kaupverð slíkra hluta almennt mun hærra hjá þeim betur stæðu en þeim sem minna hafa milli handanna. Það er þess vegna í grunninn óréttlátt að fjármagna lækkun vörugjalda á flatskjái og nuddpotta með hækkun á mat.

Ríkisstjórnin kemur með mótvægisaðgerðir. Hækkun barnabótanna, sem lögð er til sem mótvægi, dugar ekki til að vega upp á móti lækkun þessarar ríkisstjórnar frá árinu 2010. Útgjöld til barnabóta á árinu 2015 eru þrátt fyrir þessa hækkun lægri að raungildi en árið 2010. Tekjuskerðingarmörk barnabóta eru svo lág að þeir sem eru á lágmarkslaunum njóta ekki einu sinni fullra barnabóta. Þær skerðast til fulls, ef ég man rétt, við 500 þús. kr. þannig að fólk sem fer þar yfir fær ekki neitt. Þær byrja að skerðast við 200 þús. kr. Þetta þýðir að barnabætur í því formi sem ríkisstjórnin hefur útfært eru ekki lengur barnabætur, þær eru uppbótargreiðslur til lágtekjufólks með börn en ekki barnabætur í þeim skilningi. Ef fólk á lágmarkslaunum nýtur ekki fullra barnabóta þá er mjög vitlaust gefið. Grundvallarhugsunin að baki barnabótakerfinu var að fólk á meðallaunum nyti óskertra barnabóta. Það er langur vegur frá því í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það er engar mótvægisaðgerðir að finna í frumvarpinu fyrir þá sem ekki eru með börn á framfæri. Mikill fjöldi lágtekjufólks er ekki með börn á framfæri. Það fólk fær enga úrlausn samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar.

Við sjáum þó í breytingartillögum hækkun á húsaleigubótum sem nemur 400 millj. kr. Það er athyglisvert að sjá það þegar horft er til þess að ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið skuldaúrræði fyrir fólk í eigin húsnæði sem felur í sér útdeilingu fjár upp á 20 milljarða á ári, 20 þús. milljónir, á meðan fólk í leiguhúsnæði borgar í langflestum tilvikum verðtryggða leigu og hefur því orðið fyrir sambærilegum forsendubresti og fólk í eigin húsnæði. Þessi 400 milljóna hækkun húsaleigubóta verður býsna hornasarleg í samanburðinum.

Meðal tillagnanna er niðurfelling sykurskatts. Uppleggið er eiginlega þannig af hálfu ríkisstjórnarinnar, þ.e. forsendan fyrir því að jafnan gangi upp og heimilin fari betur út úr breytingunni, að fólk borði óhollari mat eða kaupi flatskjái eða nuddpotta í einhverju hlutfalli því að annars fær það ekkert út úr breytingunni. Ef fólk kaupir ekki vörur sem vörugjald er fellt niður af og ef það borðar hollan mat þá mun það fyrst og fremst að borga meira. Það var athyglisvert í samanburði Rannsóknaseturs verslunarinnar að innkaupakarfan hækkaði um 42 þús. kr. hjá meðaltalsfjölskyldu en um 21 þús. kr. ef áhrif sykurskattsniðurfellingarinnar voru tekin með í reikninginn. Með öðrum orðum, ef fólk borðaði hollt borgaði það 42 þús. kr. meira fyrir matinn en ef það flytti matvælainnkaupin yfir í óhollari vöru, þá yrði kostnaðaraukinn ekki nema 21 þús. kr. Þannig að þeim mun meiri óhollustu sem fólk étur þeim mun betur kemur það út úr þessari breytingu. Þetta eru hræðileg skilaboð út frá lýðheilsufræðilegu sjónarmiði. Það eru líka mjög öfugsnúin réttlætisskilaboð ef lágtekjufólk, sem vill leggja það á sig að borða hollan mat, þarf að þola það að á hann séu lagðar auknar álögur á meðan óhollustan er gerð ódýrari á sama tíma og við sjáum rannsóknarniðurstöður um að hættan sé akkúrat sú um allan heim að lágtekjufólk neyðist til að kaupa óhollari matvæli vegna verðsins.

Mér finnst líka vert að rifja upp orð hv. þm. Frosta Sigurjónssonar. Ég hrósa honum fyrir það hvernig hann hefur talað hér um sykurskattinn og haft til þess þrek og dug öfugt við marga úr stjórnarmeirihlutanum og þorra stjórnarþingmanna. Hann minnti á það að sykurskattur í 20 ár dygði fyrir Landspítala. Það eru engar smáfjárhæðir sem hér er verið að ákveða að fella niður. Það finnst mér líka vera mikið umhugsunarefni. Af hverju er verið að lækka álögur á óhollustu við þessar aðstæður, þegar Íslendingar glíma við það að offita er að verða hér verra vandamál en í flestum öðrum Evrópuríkjum? Það er misjafnt hvort rannsóknir segja að við stöndum Bandaríkjamönnum að baki í þeirri „keppnisgrein“ eða höfum komist fram fyrir þá. Þessi breyting styðst ekki við nein efnisrök og engin skynsemisrök. Það er jafn fráleitt að afnema álögur á sykur og að afnema álögur á áfengi og tóbak.

Grundvallarforsendan fyrir því að þessar virðisaukaskattsbreytingar auki kaupmátt hjá heimilum sem eru tilbúin að neyta meiri sykurs og kaupa fleiri flatskjái er samt sem áður sú að allar breytingar leiti með nákvæmlega sama hætti út í verðlagið, jafnt hækkanir sem lækkanir. Því miður styðja engin reynslurök þá ályktun. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni hefur það verið rakið af rannsóknaraðilum og þá sérstaklega af Rannsóknarsetri verslunarinnar að styrking og veiking krónunnar birtist í verðlagi með þeim hætti að hækkanir skila sér hratt út í verðlag og lækkanirnar að litlu leyti. Við þekkjum nákvæmlega þessa sögu og hún styðst við reynslu okkar af verðbólgusamfélagi undanfarinna áratuga. Reynslan frá 2007 af lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda þá segir nákvæmlega sömu sögu. Lækkun virðisaukaskatts skilaði sér þá nær eingöngu í matvöruverslunum, en það varð ekki vart lækkana hjá veitingahúsum og gististöðum og afnám vörugjalda af matvöru skilaði sér illa út í verðlag. Þegar háttar í hagkerfinu eins og nú með vaxandi eftirspurn og umsvifum á uppgangstímum þá minnkar sömuleiðis hvati til að skila lækkunum út í verðlag. Ef menn eiga einhvern tíma að ráðast í aðgerðir eins og þessar og vilja tryggja að lækkanir skili sér út í verðlag þá á að láta þær eiga sér stað á samdráttartímum þegar verið er að berjast um kúnnana af fullri hörku, en ekki á tímum eins og nú.

Í greiningum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir því að verðlag lækki í heildina um 0,35% með breytingunum og ráðstöfunartekjur aukist um 0,65%. Þessir útreikningar byggjast, eins og ég rakti áðan, á því að allar breytingar skili sér út í verðlag og allar nákvæmlega eins, hækkanir og lækkanir jafnt. Það hafa ekki verið gerðar neinar fráviksgreiningar frá þessu. Af hverju í ósköpunum ekki? Hvað með að byggja nú á niðurstöðum Rannsóknaseturs verslunarinnar og gefa sér t.d. að — nú ætla ég að taka dæmi af handahófi — að lækkun skili sér 50% en hækkun að fullu? Hvað þýðir það á kaupmátt heimilanna? Hafa vinir mínir í Framsóknarflokknum, sem sögðust ætla að standa vörð um kaupmátt allra heimila, gert þá greiningu? Liggur hún fyrir? Hinar augljósustu líkur eru þær að þetta muni ekki skila sér að öllu leyti með sama hætti vegna þess að það eru bara engin efnisleg rök fyrir því að draga þá ályktun.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp byggir á mörgum óljósum forsendum. Jafnvel þó að við förum eftir forsendunum sem reiknað er með og jafnvel þó að lágtekjufólk kaupi eins og hálfan flatskjá á ári og jafnvel þó að lágtekjufólk kaupi sér fjórðungshlut í nuddpotti á ári og jafnvel þó að lágtekjufólk hætti að borða hollt og hlýði fyrirmælum ríkisstjórnarinnar og borði meira sykrað jukk og sullumbull og drekki meira gos þá munu ráðstöfunartekjur þess samt ekki aukast nema allar verðbreytingarnar skili sér með nákvæmlega sama hætti út í verðlag, þ.e. að hækkanirnar og lækkanirnar skili sér alveg eins út í verðlagið. En jafnvel þá kemur breytingin með ósanngjörnum og ósambærilegum hætti við ólíkar tekjutíundir.

Menn úr fjármálaráðuneytinu börðu sér á brjóst nýverið og sögðu að niðurstöðurnar af greiningum þeirra, sem lágu ekki fyrir fyrr en eftir dúk og disk, sýndu að með þessum mótvægisaðgerðum öllum saman mundu ráðstöfunartekjur allra tekjutíunda aukast. Þegar horft var nánar í þessar tölur kom í ljós að auknar ráðstöfunartekjur efstu tekjutíundarinnar verða 40 þús. kr. á ári en auknar ráðstöfunartekjur fimm neðstu tekjutíundanna aukast um 10 þús. kr. Enn og aftur er ávinningnum af þessari aðgerð, jafnvel þó að hún muni virka, með þeim draumkennda hætti sem felst í tillögu meiri hlutans, misskipt.

Virðulegi forseti. Ég vil að síðustu ítreka þau orð að það er gott að afnema vörugjöld og skynsamlegt, en það er fráleitt að finna fjármagn til þess með því að hækka nauðsynjar sem enginn getur neitað sér um og flytja þar með í grunninn skattheimtu af þeim betur settu, sem geta án mikillar umhugsunar keypt sér nuddpott eða viðbótarflatskjá, yfir á þá sem geta ekki einu sinni látið sig dreyma um að eignast nokkru sinni nuddpott en þurfa á hverjum einasta degi að kaupa í matinn fyrir sig og fjölskyldu sína og streða við það alla daga að tryggja að samsetning innkaupanna sé með þeim hætti að næringargildi og hollusta sé í fyrirrúmi. Þess vegna eru þessar tillögur svo dapurlegar. Að láta nauðsynjar fólks niðurgreiða sykur og lúxusvörur er öfugsnúnasta skattheimtuhugmynd sem ég man eftir að hafa séð og er þó langt til jafnað á undanförnum árum þar sem við höfum fengið að sjá margt frá þessari ríkisstjórn.