144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:53]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit náttúrlega bara það sem ég hef lesið um þetta mál. Samfylkingin lagði fram þingsályktunartillögu um að þetta skyldi skoða og byggði einmitt mál sitt á þessari skýrslu frá árinu 2006. Í skýrslunni er ekki farið neitt leynt með það að engin ein aðgerð sé jafn árangursrík til að lækka matvöruverð og að draga verulega úr þeirri innflutningsvernd sem innlend búvöruframleiðsla nýtur með því að lækka tolla. Það sé skilvirkasta leiðin til þess að lækka matvælaverð. Þýðir þetta að það eigi bara að gera það sisvona og ekkert eigi að koma á móti? Ég held að það sé ekki pólitískur veruleiki eða pólitískt gerlegt. Maður býður ekki fólki upp á að gera það sisvona. Þegar menn eru orðnir háðir ríkisstyrkjum verður að venja þá af því yfir ákveðið tímabil. En það er klárlega hægt, með því að taka þessa tolla af, tollverndina, bæði tolla í prósentum og kvótana, að skila neytendum á mjög skilvirkan hátt miklu lægra matvælaverði og ígildi þess stuðnings skili sér til búvöruframleiðenda með öðrum leiðum, með fjárframlögum frá ríkinu. Þannig væri hægt að gera þetta, það væri langskilvirkast, og það mundu allir græða. Það mundu allir græða á þessu. Þetta er miklu skilvirkari leið.

Hvað vilja landsmenn? Í mars gerir Viðskiptablaðið könnun þar sem kemur fram að 61% landsmanna eru hlynnt því að þessir tollar séu teknir af, það sé frjáls innflutningur á matvælum. Nýlega eða í október gerði Fréttablaðið könnun og þar var hlutfallið að mig minnir rétt um 54%. Meiri hluti landsmanna vill þessa aðgerð.