144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Við þurfum að horfa á heildaráhrifin á kaupmátt heimilanna í öllu þessu. Við megum ekki skerða kaupmátt heimilanna, ekki í þessu árferði. Virðisaukaskatturinn er einn þáttur af þessu. Í dag, eins og hann er settur upp sem 11% — að hann hækki úr 7% í 11% en ekki úr 7% í 12% — mun það, alla vega samkvæmt útreikningum þeirra sem leggja frumvarpið fram og nefndarinnar, auka kaupmátt heimilanna eitthvað, en samt sem áður mundi matvælaverð, eins og formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar sagði mér, hækka um 1–2%. Kannski finnst sumum það einkennilegt, en mér finnst það ekki einkennilegt að við erum ekki að hækka matvælaverð.

Upprunalega, í orðaskiptum mínum við hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson, benti ég á þann möguleika að undanskilja matvöru frá virðisauka. Hvers vegna erum við að skattleggja þessa lífsnauðsynjar? Svörin þá voru: Já, undantekningar, þær eru svo slæmar út af því að þær eru svo óskilvirkar. Það var svarið.

Þá fórum við að skoða aðrar leiðir. Þetta er skilvirkasta leiðin í því að lækka matvælaverð, að afnema þessa tolla. Eins og ég nefndi áðan var hægt að fara aðra leið til að skila búvöruframleiðendum ígildi tollverndarinnar. Ígildi tollverndarinnar 2006, samkvæmt skýrslu sem forsætisráðherra kallaði eftir, var að skila búvöruframleiðendum um það bil 6 milljörðum meðan það kostaði hærra matvælaverð upp á 9,5 milljarða fyrir neytendur.