144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt lögmætar spurningar. Ég hef í sjálfu sér meiri áhyggjur af bókmenntum og kvikmyndum og leiknu efni en tónlist. Ástæðan er sú að fólk býr til tónsmíði mikið til án þess að ætla endilega að fá borgað fyrir það. Ég þekki það sem tónsmiður, hef samið tónlist frá unga aldri, ég spila á nokkur hljóðfæri, að fólk gerir sér þetta til dægradvalar. Maður getur samið eitt lag, það gæti orðið „hitter“ þótt það sé ekki nema tvær eða þrjár mínútur að lengd. Þegar kemur hins vegar að bókmenntaverkum og kvikmyndum þá er um að ræða verkefni sem tekur langan tíma og krefst þess í raun og veru að maður geti unnið við það. Ég held að við missum ekki íslenska tónlist þótt tónlistarmenn hafi ekki enn fundið út úr því nákvæmlega hvernig þeir ætli að fá borgað. Það er líka mikil gróska í tónlistargeiranum á Íslandi, því verður ekki neitað. Íslensk tónlist hefur aldrei verið jafn víða í heiminum og nú.

Það eru vandamál sem steðja að tónlistarmönnum þegar kemur að því að fá greitt. Það hefur alltaf verið tilfellið en módelið er mikið að breytast. Eins ég segi er mikil gróska í tónlistinni, sömuleiðis tekjumöguleikum. Enn fremur er alltaf sú tilhneiging í tónlistinni að textinn sé á ensku. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvers vegna það er, kannski vegna þess að menn eru vanir því að hlusta á enska tónlist eða kannski er málfræðin einfaldari, ég átta mig hreinlega ekki á því.

Þegar kemur að íslenskri kvikmyndagerð og íslenskum bókmenntum er íslenska tungan lykilatriðið. Hún er miðja verksins og skiptir því afskaplega miklu máli. Þess vegna tel ég að Ríkisútvarpið sé afskaplega mikilvæg stofnun til að tryggja að íslenskt efni sé framleitt á íslenskri tungu þótt netið geti alveg tekið við einhverju af hlutverkum þess. Íslenskar kvikmyndir, (Forseti hringir.) íslenskar þáttaraðir, íslenskar fréttir o.s.frv. (Forseti hringir.) kosta peninga og er ekki eitthvað sem áhugafólk mun gera (Forseti hringir.) í stofunni heima hjá sér.