144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[19:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þeir hafa alla vega fundið skjaldborgina sína utan um hátekjufólkið. Þetta er óstjórn.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir spurði mig að einu sem mig langaði að svara áðan, ég bið hv. þm. Árna Pál Árnason að fyrirgefa mér það, en hún spurði mig hvort þessi hækkun á grundvallarnauðþurftum mundi hafa áhrif á kjaraviðræður. Það er alveg gefið. Ef verkalýðsfélögin munu ekki taka þetta til greina í kjaraviðræðum sínum þá standa þau sig náttúrlega ekki í stykkinu, það er bara þannig.

Efnahagur og efnahagslíf hvers þjóðfélags er ákaflega mikil efnafræði. Við erum með eina köku og það er alveg sama hvernig við snúum og breytum tölunum í excel-skjalinu, efniviðurinn sem við höfum er alltaf sá sami. Efniviðurinn er skatturinn okkar og hvað við fáum fyrir skattinn okkar. Ég verð að segja að mér finnst ég illa svikin fyrir þá skatta sem ég borga. Ég hélt alltaf að ég væri að borga skatta fyrir ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir alla og ég væri að borga skatta svo að fólk gæti stundað hér nám á jafnræðisgrundvelli án þess að borga fyrir það. Mér finnst ég vera svikin og ég er ekki ein um það.