144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki var óskað eftir umsögn velferðarnefndar um málið. Við fjölluðum um mál þrjú, sem er hér næst á dagskrá, samkvæmt beiðni nefndarinnar en þetta mál kom ekki inn á okkar borð.

Það fer að verða svolítið merkilegt með lýðheilsumálin því að hvorki meira né minna er búið að stofna ráðherranefnd um lýðheilsumál. Henni veitir forstöðu sjálfur forsætisráðherra. Þetta er sko á hæsta stigi, þetta er alvörumál í huga ríkisstjórnarinnar og það er vel. Eftir að sú nefnd var sett á laggirnar rúllar hér inn hvert málið á fætur öðru sem eru í mótstöðu við lýðheilsustefnu stjórnvalda. Er þar nóg að nefna áfengissölumálið sem og lækkunina á sykurskatti.

Þetta er svolítið eins og með það sem ég fór yfir í ræðu minni að í fjárlagafrumvarpinu er boðað eitt, svo er því breytt á milli umræðna og dregið úr boðuðum niðurskurði, þá er það allt í einu orðið lækkun. Það er sami feluleikurinn í gangi með lýðheilsumálin. Það er ráðherranefnd um lýðheilsumál og svo koma mál sem varða lýðheilsumál inn í þingið en þá eru þau öll andstæð lýðheilsu. Það fer að verða tímabært að við fáum svolítið fregnir af því hvað sú nefnd sér fyrir sér að gera, hvaða tillögur munu koma frá ríkisstjórninni varðandi lýðheilsumál. (Gripið fram í: Mótvægisaðgerðir.) Já, hvaða mótvægisaðgerðir eigum við eftir að fá að sjá? Ég verð að segja, frú forseti, að ég hálf kvíði þeim.