144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði. Ég held að við séum að fara of bratt inn í þetta, því miður. Eins og komið hefur fram í umræðunni hafa fimm Evrópuþjóðir engan virðisaukaskatt á bókum. Maður hefur líka velt fyrir sér hvort það væri gáfulegt að hafa eitt þrepið bara mjög lágt, það færi þá allt í það þrep, það væri ekkert undanskilið.

Mér finnst vera svo margar hugmyndir í þessu. Maður heyrir líka að Samtök atvinnulífsins hafi komið með hugmyndir inn á fund efnahags- og viðskiptanefndar. Mér finnst kannski skorta á að það sé einhvern veginn meira samtal og meiri sátt um breytingarnar.

Ég held að allir séu að einhverju leyti sammála um að fara í einföldun á virðisaukaskattskerfinu. En ég held að hefði kannski mátt gera þetta í meiri samvinnu við alla flokka og fleiri hagsmunaaðila í þjóðfélaginu. Mér finnst fókusinn ekki alveg í lagi hérna, að menn séu að stíga fyrstu skref í einhverju sem þeir vita ekki alveg hvernig eigi að enda.