144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[23:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vangaveltur varðandi tolla. Já, ég ítreka það sem ég hef sagt hér og hef alltaf verið þeirrar skoðunar. Ég ber mikla virðingu fyrir bændum og innleggi þeirra í matvælaframleiðslu og hlutverki þeirra í ferðaþjónustu. Ég gæti haldið lengri ræður um það.

En þegar við horfum upp á skort á kjötvörum ýmiss konar eins og við þekkjum, á ostum eða hvaða vöruflokkum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér, erum við örugglega sammála um að við eigum að leita leiða til að bæta hag neytenda. Ég treysti bændum fullkomlega til að standa með okkur í því. Öll samkeppni verður til bóta. Þeir standast hana alla leið.

Ég hlakka til að fá skýrslu hæstv. landbúnaðarráðherra hér inn. Ég skal svara seinni spurningunni hér á eftir.