144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku ræddi ég hér nokkuð sölu Landsbankans á greiðslukortafyrirtækinu Borgun sem var selt eftir að einhverjir fjárfestar gerðu tilboð til bankans. Þetta var ekki í opnu söluferli og það mátti skilja á viðbrögðum bankastjóra Landsbankans að þetta fyrirkomulag væri meðal annars vegna þess að Samkeppniseftirlitið hefði eitthvað haft að athuga við þessa sölu. Ég hafði af því tilefni samband við Samkeppniseftirlitið sem staðfesti að það tekur ekki afstöðu til þess hvaða bankar fari með eignarhald í greiðslukortafyrirtækjum eða hvort Landsbankinn hafi vegna eignarhalds ríkisins átt að setja hlutinn í opið söluferli, þ.e. hvorki féllst eftirlitið á né gerði athugasemdir við útfærslu eða tilhögun sölunnar. Samkeppniseftirlitið hafði sem sagt ekkert við það að athuga að þetta söluferli yrði opið.

Nú kemur upp á teningnum að Landsbankinn lætur ekki staðar numið heldur ætlar að selja annað greiðslukortafyrirtæki sem Landsbankinn á sirka jafn mikið í, þ.e. 30–35%. Það er ekki annað séð en að það verði gert á nákvæmlega sama hátt, á grundvelli eins tilboðs. Landsbankastjóri lét hafa eftir sér í fréttum í gær eða fyrradag að Landsbankinn vissi svo afskaplega lítið um rekstur þessara fyrirtækja, en samt treystir hann sér til þess að taka tilboði óðar en það er gert og leitar ekki eftir öðrum. Hann treystir sér til þess að leggja mat á það að tilboðið sé virkilega hagstætt.

Síðast í gær sagði þessi sami bankastjóri um Valitor-söluna: Ja, við erum nú eiginlega alveg í myrkri með þetta mál. Og þá spyr maður: Af hverju leitar maðurinn ekki að einhverjum sem hefur ljós til þess að lýsa upp þetta myrkur sem hann er í? Og af hverju gengur hann í sömu gildruna aftur, að selja öflugt fyrirtæki á fyrsta tilboði? Ég hélt að það væru margir fjárfestar á Íslandi sem væru í vandræðum með að fjárfesta, (Forseti hringir.) m.a. vegna hafta. Ég skil þetta ekki.