144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið hugsi eftir þetta svar. Er hv. formaður að segja að við séum í raun að breyta verklaginu aftur til þess sem var? Það getur líka verið vandkvæðum bundið að setja allt inn í ráðuneytin, ég get skilið það, en mér finnst þetta vera orðið svolítið tilviljanakennt. Ég hafði ekki hugmynd um það sem nefndarmaður í fjárlaganefnd að fjárlaganefnd ætlaði að fjalla um félagasamtök. Ég hefði þá kannski beitt mér fyrir því að Neytendasamtökin, sem fá 8 milljónir á fjárlögum, fengju nú aðeins meira í sinn hlut, sem dæmi. Mér finnst við vera komin á þann stað að sex manneskjur eða meiri hlutinn í fjárlaganefnd ætli að útdeila einhverjum peningum. Það var kannski það sem var verið að reyna að breyta, að úthlutanir færu ekki eftir því hver hefði tengsl við nefndarmenn í fjárlaganefnd heldur væri meira jafnræðis gætt með því að setja fé í sjóði og safnliði, menn sæktu um og allir sætu við sama borð. Ég skil það þannig að við séum þá í raun komin með þetta verklag og það verði þannig á meðan þessi stjórn situr.