144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu. Það var margt gott sem þar kom fram að mínu áliti. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnst svífa yfir vötnum trú á því að ef eitthvert vandamál komi upp þá sé alltaf hægt að leysa það með því að setja pening í það. Ég sakna þess hjá hv. þingmanni að hafa ekki aðeins meiri aðhaldshugsun í málflutningi sínum. Hv. þingmaður fór réttilega yfir stöðuna í ríkisfjármálum, hvers beri að vænta. Það er algjörlega ljóst að við þurfum að nýta fjármunina betur en við gerum núna, það er nokkuð sem hv. þingmaður þekkir mjög vel.

Hv. þingmaður bendir hins vegar réttilega á galla í vinnubrögðum, bæði hér á hv. Alþingi og líka hjá framkvæmdarvaldinu, og bendir réttilega á mikilvægi þess að vanda vel til verka í áætlanagerð og öðru slíku. Ég held ég geti tekið undir flest af því sem hv. þingmaður sagði hvað það varðar.

Ég vildi því spyrja hv. þingmann um breytingartillögur minni hlutans sem hv. þingmaður er á. Fyrsti liðurinn er nýr liður: Betra skatteftirlit og kaup á upplýsingum 3 milljarðar. Hvernig er þessi tala fengin, virðulegi forseti? Hvernig getum við náð í 3 milljarða? Þetta eru 3 þús. milljónir. Frá því ég byrjaði í stjórnmálum, og það var ekki í gær, þá hef ég alltaf séð þetta, það er alltaf einhver upphæð sem menn setja upp og segja að hægt sé að ná í með bættu skatteftirliti.

Ég er búinn að fylgjast með þessu í 20 eða jafnvel 30 ár — í 25 ár eins og leigubílstjórinn. Ég bara skil ekki af hverju þetta er aldrei gert og ég skil ekki hvernig þessar tölur eru fundnar. Ég vildi gjarnan biðja (Forseti hringir.) hv. þingmann um að útskýra það fyrir mér hvernig þessi tala er fundin.