144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að við erum að tala um tölur þá telur Ríkisendurskoðun, ef bótasvik eru sambærileg og þau eru til dæmis í Danmörku, að við séum að verða af 3 til 4 milljörðum á ári í þeim málaflokki. Ég er algjörlega tilbúin að fara í þetta verkefni með hv. þingmanni, ég lýsi mig reiðubúna til þess.

Þegar ég tala um að það þurfi pólitíska ákvörðun í málum — eins og í heilbrigðiskerfinu, Landspítalanum, í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri eða hvar sem er, RÚV — þá er ég ekki að tala um að þingmenn fari að skipta sér af því, heldur er það ráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á því að stofnun sé haldið innan fjárheimilda. Það er auðvitað forstöðumaður stofnunarinnar, en síðan er það ráðherrann sem hefur æðsta valdið. Hann á að grípa til aðgerða. Í tilfelli RÚV má alveg hugsa sér — RÚV þarf ekkert endilega að líta út eins og það gerir í dag, en ef við viljum hætta með Rás 2, þá er það væntanlega ákvörðun sem stjórnin tekur ekki heldur menntamálaráðherra. Það finnst mér að þurfi að vera pólitísk ákvörðun.

Ef Landspítalinn ætlar að skera niður þjónustu og ætlar að loka BUGL eða hvað sem er til að vera innan fjárheimilda, þá er það ráðherrann sem þarf að grípa til aðgerða og hafa eftirlit með sínum stofnunum. Mér hefur fundist skorta á það, ekki bara hjá þessari ríkisstjórn heldur bara í gegnum tíðina, að ráðherrar axli ábyrgð. Stofnanir eiga ekkert að komast upp með það ár eftir ár að fara fram úr fjárheimildum og safna skuldahala eins og mörg dæmi eru um. Það er bara þannig.

Ég sé ekkert eftir nefskattinum í RÚV, en ég geri að sjálfsögðu kröfur um að reksturinn sé skynsamlegur. Ég er ekkert endilega alltaf sammála fréttastofunni, þetta snýst ekkert um það. Mér heyrist á þjóðinni að hún sé svona upp til hópa tilbúin að borga sinn nefskatt til að þessi mikilvæga stofnun megi vaxa og þrífast.