144. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[00:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu að mínu mati. Mér fannst hv. þingmaður fara mjög vel yfir þau mál sem við höfum verið að fjalla um í fjárlaganefnd og mér fannst sérstaklega kaflinn þar sem hv. þingmaður fór yfir fjarskiptamálin mjög upplýsandi og fróðlegur. Ég hlakka til að sjá áætlunina sem verið er að vinna að því að þarna er um að ræða mjög mikilvægt byggðamál.

Það var eitt sem hv. þingmaður nefndi ekki, fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum og hvað það þýðir fyrir landsbyggðina þegar aðgengi að framhaldsskólunum er svona takmarkað. Þegar nemendur 25 ára og eldri fá ekki aðgang að bóknámi framhaldsskólanna fækkar nemendum í skólunum og það getur haft áhrif á námsframboð minni skóla.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga fer verst út úr þessu. Þar á nemendum að fækka um 18,4%. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að þessi aðgerð stjórnvalda núna muni hafa áhrif á aðgengi að framhaldsskólum? Upptökusvæðið er ekki mjög stórt, en 25 ára og eldri nemendur í bóknámi eru partur af skólasamfélaginu og verða til þess að það er hægt að bjóða upp á fjölbreyttara nám. Hættan er sú að þegar þeir eru farnir og þrengir að skólanum muni það líka skerða möguleika yngri nemenda á fjölbreyttu námi á sínu heimasvæði. Þetta hefur mest áhrif á landsbyggðinni. Hvað vill hv. þingmaður segja um þessa þróun og þessa aðgerð stjórnvalda?