144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:36]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 við 2. umr. Milli 1. og 2. umr. hafa átt sér stað breytingar í samræmi við breyttar aðstæður. Ljóst er að tekjur til ráðstöfunar eru meiri en gert var ráð fyrir við 1. umr. sem nemur 9,5 milljörðum og munar þar mest um auknar skatttekjur af einstaklingum og fyrirtækjum sem eru augljóst batamerki á efnahag og atvinnulífi þjóðarinnar. Ríkisstjórnin og meiri hluti fjárlaganefndar hafa því lagt fram ýmsar breytingartillögur frá 1. umr. í samræmi við það og sem koma fram á þskj. 638 og 639 á 144. löggjafarþingi. Það sem er sérlega ánægjulegt er að allt hagræna umhverfið er mun betra og stöðugra en við hefðum getað búist við fyrir um tveimur árum. Í dag mælist verðbólga 1%, atvinnuleysi hefur dregist saman og hagvöxtur er um 3%. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur fyrir árið 2015 verði 3,3%. Styrk efnahagsstjórn er lykilatriði sem og batnandi hagur atvinnulífsins. Kaupmáttur hefur aukist og einkaneysla fer vaxandi, almenningur finnur á eigin skinni að það er meira til ráðstöfunar en verið hefur undanfarin ár.

Boðuð niðurfelling á vörugjöldum um næstu áramót mun enn frekar styðja við efnahag almennings en það munar um allt að 25% lækkun á ýmsum vörum til heimila. Hið sama má segja um lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%. Hækkun neðra þreps úr 7% í 11% er mætt með ýmsum mótvægisaðgerðum eins og hér hefur verið rakið, eins og til dæmis 1 þús. millj. kr. hækkun á barnabótum og lækkun á lyfjakostnaði til almennings um 5%. Þegar litið er til annarra norrænna ríkja sjáum við hvergi svo lága virðisaukaskattsprósentu á matvæli og á Íslandi.

Það er fagnaðarefni að annað árið í röð stefnir í hallalausan rekstur hjá ríkissjóði. Skuldasöfnun er hætt og það er von mín að svo verði áfram og brátt verði svo komið að hægt sé að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Vaxtabyrði ríkissjóðs er þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisútgjalda á eftir velferðar- og heilbrigðismálum. Útgjöld til velferðar- og heilbrigðismála eru rétt um helmingur allra útgjalda ríkisins og ljóst er að sá gjaldaliður mun aukast á næstu árum þar sem Íslendingar ná almennt hærri aldri en var fyrir nokkrum áratugum. Það er auðvitað á sinn hátt ánægjulegt en við þurfum að búa okkur fjárhagslega undir þennan veruleika.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er lagt verulega aukið framlag til menntamála, framlög til háskóla eru aukin og framlög til framhaldsskóla sömuleiðis. Við stöndum frammi fyrir því að þeir árgangar sem koma inn í framhaldsskóla á næstu árum eru fámennari og því fækkar í framhaldsskólum til viðbótar þeirri fækkun sem stytting náms til stúdentsprófs hefur í för með sér. Þrátt fyrir það er ekki skorið niður sem þeirri fækkun nemur heldur er fjármagninu haldið inni í framhaldsskólakerfinu og það nýtt til að hækka framlag á hvern nemanda sem sannarlega var þörf á. Ekki er gert ráð fyrir að 25 ára og eldri einstaklingar verði áfram í framhaldsskólakerfinu en sveigjanleiki verður þó til staðar fyrir þá skóla sem hafa svigrúm til þess. Það er mér sérstakt ánægjuefni að meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að 35 milljónir verði settar sérstaklega inn til að koma til móts við litla framhaldsskóla sem áður voru á gólfi og eru með undir 150 nemendaígildum. Það skiptir verulega miklu máli að ekki sé kippt grundvelli undan þeim fjárhagslega meðan á umbreytingu til styttingar á sér stað. Í fjáraukalögum fyrir árið 2014 er þessi sama upphæð, 35 milljónir, inni til þessa sama verkefnis. Það er því verið að setja samtals 70 milljónir sérstaklega inn í fámenna framhaldsskóla með fjáraukalögum 2014 og á fjárlögum fyrir árið 2015.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til að Isavia greiði arð til ríkissjóðs upp á 500 milljónir og að það fjármagn verði nýtt til að lagfæra og endurbæta flugvelli á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst að full þörf er á því og víða orðið hættuástand á flugvöllum á landsbyggðinni. Það gerðist til dæmis á dögunum að veruleg hætta skapaðist á Húsavíkurflugvelli þegar lendingarljósin biluðu skömmu fyrir lendingu flugvélar þar en sem betur fer tókst viðgerð rétt fyrir lendingu. Húsavíkurflugvöllur hefur ítrekað leitað eftir því við Isavia að bæta öryggi og aðstæður á flugvellinum án þess að fá þar hljómgrunn. Á Akureyrarflugvelli hefur lengi verið beðið eftir að ákvörðun verði tekin um nýframkvæmdir á flughlaði þar, en í rúmt ár hefur komið efni úr Vaðlaheiðargöngum sem ætlað var að nota til þeirrar framkvæmdar. Það er sannarlega tímabært að framkvæmdir hefjist hið fyrsta við flughlað þessa fjölfarnasta innanlandsflugvallar utan Reykjavíkurflugvallar og eins af mikilvægum varaflugvöllum landsins. Fleiri flugvelli á landsbyggðinni þarf að setja í forgang, flugvelli sem eru lífæðar heimabyggðar og jafnvel eina færa samgönguleiðin á þungum snjóavetrum, stundum mánuðum saman eins og á Gjögri.

Á öllum fundum fjárlaganefndar að heitið geti og þingmanna í kjördæmaviku með sveitarstjórnarmönnum kom skýrt í ljós að fjarskipti og netsamband voru eitt stærsta áherslumál þeirra. Mörg sveitarfélög hafa lagt í framkvæmdir með íbúum og fjarskiptafyrirtækjum nú þegar enda grundvallaratriði í nútímaþjóðfélagi og ígildi vegalagningar að vera í sambandi við umheiminn í gegnum netið, hvort heldur er vegna atvinnu, menntunar, viðskipta, afþreyingar eða annars. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur því til að 300 milljónir verði lagðar í fjarskiptasjóð til að framkvæma fyrsta hluta fyrirhugaðrar ljósleiðaravæðingar um landið.

Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt til lækkun á útvarpsgjaldi úr 19.400 kr. í 17.800 kr. Ríkisútvarp allra landsmanna hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki. Nú er staðan sú að útsending næst ekki til allra landshluta og því má velta fyrir sér hvort það öryggishlutverk sem það á að gegna sé svo í raun. Það er líka svo að einstaklingar, fyrirtæki og félög hafa ekkert val um það að greiða eða greiða ekki útvarpsgjald jafnvel þótt viðkomandi einstaklingur, félag eða fyrirtæki eigi ekki og noti ekki sjónvarp eða hljóðvarp.

Tekin var ákvörðun um að hraða skuldaleiðréttingunni sem ríkisstjórnin hefur unnið að frá upphafi þessa kjörtímabils. Það sem er ánægjulegt við þessa leiðréttingu er að hún nær til svo margra, hún vegur þyngst fyrir fólk sem er undir meðaltekjum og var innan við fertugt við forsendubrestinn, fyrir fólk sem á lítið eigið fé í húsnæði sínu og fer við leiðréttinguna jafnvel úr neikvæðri eign í allt að 4 millj. kr. jákvæða eign. Skuldaleiðréttingin gagnast best ungu fólki og fólki undir miðjum aldri.

Nú þegar hefur verið og er verið að vinda ofan af þeirri kjaraskerðingu sem aldraðir urðu fyrir hinn 1. júlí 2009 í valdatíð vinstri stjórnarinnar. Frá 1. júlí 2013 hefur skerðing á grunnlífeyri ellilífeyrisþega vegna lífeyrissjóðstekna verið afnumin. Frá sama tíma var frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkað úr 40 þús. kr. í 110 þús. kr. á mánuði. Skerðingarhlutfall tekjutryggingar var lækkað úr 45% í 38,35% og skerðingarhlutfall vegna heimilisuppbótar lækkaði samsvarandi 1. janúar 2014 og frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega hækkaði úr 10 þús. kr. í 27 þús. kr. á mánuði 1. janúar 2014.

Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar hækkaði því úr 480 þús. kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári. Þetta er sama frítekjumark og gildir gagnvart atvinnutekjum örorkulífeyrisþega en tilgangurinn með þessu var fyrst og fremst sá að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku eldri borgara því að mikilvægt er að fólki sé gert kleift að stunda vinnu sem lengst til að auka lífsgæði þess og virkja kraft eldri borgara sem vinnuafls.

Heilbrigðismál eru forgangsmál og ljóst er að þrátt fyrir stórhækkuð framlög til heilbrigðismála er þörf á enn meira fjármagni þar. Má í því efni nefna heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni sem þurfa verulega á meira fjármagni að halda. Þó að, eins og fram hefur komið, um helmingur ríkisútgjalda fari einungis í velferðar- og heilbrigðismál er þörf fyrir aukið fjármagn í þá málaflokka. Til Landspítalans okkar fara rétt tæpar 50 þús. milljónir á næsta ári samkvæmt frumvarpinu en það dugir vart til. Það er hins vegar rangt, villandi og ósanngjarnt að halda því fram að verið sé að skera niður og jafnvel eyðileggja heilbrigðiskerfi landsmanna þegar svo sannarlega er forgangsraðað og bætt inn stórauknu fjármagni til þess. Við þurfum hins vegar meira fjármagn og meiri tíma til þess að eiga fullkomnasta heilbrigðiskerfið.

Hæstv. forseti. Fjárlaganefnd á eftir að taka fjárlagafrumvarpið til sín á milli 2. og 3. umr. Gera má ráð fyrir að einhverjar breytingar muni eiga sér stað fyrir framlagningu frumvarpsins til 3. umr. og ég vænti þess að svo verði.