144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef heyrt þessa möntru áður um hvað skatttekjurnar aukist gríðarlega með því að lækka skatta og gef ekki mikið fyrir hana. Ég afgreiði það ósköp einfaldlega með því að spyrja á móti hv. þingmann: Hvað verða skatttekjurnar miklar þegar prósenturnar verða orðnar núll? Þetta er gömul þvæla sem við þurfum væntanlega ekki að fara út í. Ég hef enga trú á því að það hafi orðið stórfelld undanskot á erfðafjárskatti af því einu að hann fór úr 5 í 10%, enda er það ekki hátt skatthlutfall, ætti þá að vera verra að eiga við slíka neikvæða hvata annars staðar þar sem skattprósentur eru miklu hærri.

Tekjurnar hafa aukist með auknum umsvifum í þjóðfélaginu vegna hagvaxtar í algerlega línulega samræmi við það sem gera má ráð fyrir, en ekki vegna þeirra takmörkuðu skattalækkana í beinum sköttum sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Hún hefur til dæmis ekki hróflað við álagningu skatta á fyrirtæki. Hún hefur eiginlega ekkert lækkað tryggingagjaldið þótt atvinnuleysi hafi lækkað. Hún hefur ekki breytt tekjuskattsprósentu á hagnað lögaðila en samt er sá skattstofn sennilega að aukast meira en allt annað. Ætli það sé ekki ein aðalbúbótin? Þegar nýjar forsendur komu inn og ný tekjuáætlun fyrir fjárlög næsta árs frá fjármálaráðuneytinu í nóvember var óvenju ánægjulegur vöxtur í tekjusköttum frá lögaðilum, þ.e. álagningin hélt mjög vel og var lítið um endurgreiðslur. Það er einfaldlega ávísun á það að fyrirtækin eru farin að hagnast í stórum stíl. En tekjuskattsprósentunni hefur ekki verið breytt. Hún stendur óbreytt í sínum 20%, alveg frá því hún var færð þangað 2009 ef ég man rétt. Það ætti að afsanna kenninguna. Skattar frá fyrirtækjum ættu ekkert að hækka því prósentan væri of há, en það er ekki það sem hefur gerst frekar en í tekjuskattinum eða beinu sköttunum almennt. Eða óbeinu. Þannig að þessi kenning heldur ekki vatni.

Varðandi Landsbankann er það ekki bara þannig að hann hafi greitt arð á þriðja tug milljarða, þökk sé velgengni hans, heldur bókfærðu menn (Forseti hringir.) líka í fyrra þau 18% sem þeir fengu án endurgjalds í reikninga ríkisins sem hagnað upp á eina 20 milljarða kr. (Forseti hringir.) Þannig að Landsbankinn hefur gefið þó nokkuð af sér.