144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar í þessu stutta andsvari að staldra við stöðu Ríkisútvarpsins og þá kannski fyrst og fremst þann hluta sem varðar breytingartillögu meiri hlutans við fjárlagafrumvarpið núna og þá skilyrðingu sem meiri hlutinn orðar hér í tillögunni sem hljóðar svo:

Þessi tímabundna fjárheimild er lögð hér til og útgreiðsla hennar til Ríkisútvarpsins er háð skilyrðum um að á vegum stjórnar og stjórnvalda félagsins fari fram vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu og að haldbærar rekstraráætlanir verði gerðar þar sem fram komi hvernig starfsemi stofnunarinnar verði komið á réttan kjöl og hún verði sjálfbær til frambúðar.

Síðan segir síðar: Ef mat nefndarinnar verður að þær áætlanir dugi ekki til að ná markmiðum um sjálfbæran rekstur stofnunarinnar er áformað að fjárheimildin verði felld niður í fjáraukalögum fyrir árið 2015.

Ég held að þetta sé með eindæmum. Ég hef aldrei séð svona áskilnað í breytingartillögum eða í fjárlagatillögum yfir höfuð þegar um er að ræða ohf. sem hefur sannarlega á að skipa stjórn sem hefur samkvæmt lögum tiltekin verkefni og m.a. þau verkefni sem lúta að fjárstjórn, forgangsröðun o.s.frv. Þá er rétt að benda á viðbrögð Isavia við tillögu meiri hluta fjárlaganefndar þar sem ákvörðun er tekin, eins og formaður nefndarinnar segir, um að Isavia greiði 500 milljónir í arð af rekstri Keflavíkurflugvallar en Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar, segir að það sé alveg skýrt samkvæmt lögum að ákvörðun um arðgreiðslur sé ákvörðun stjórnar fyrirtækisins og sú ákvörðun verði tekin í mars á næsta ári en alls ekki núna.

Ég spyr hv. þingmann: Er ekki alveg ljóst að fjárlaganefnd er að fara verulega út fyrir sitt verksvið, því að þetta er sannarlega ekki skilgreint samkvæmt lögum, hvorki um Isavia né um Ríkisútvarpið?