144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var ég sem lagði fram þingsályktunartillögu um störf án staðsetningar sem var samþykkt þegar ég var í stjórnarandstöðu. Svo þegar ég varð utanríkisráðherra ætlaði ég að auglýsa sérstaklega þýðendastörf sem störf á landsbyggðinni. Þá kom í ljós að það voru annmarkar á því. Upp risu bæði þingmenn en líka þeir sem töldu sig útilokaða og ég var rekinn til baka með það með áliti frá merkri stofnun. Þannig var nú jafnræðið.

Hins vegar eru til leiðir. Menn hafa lært af reynslunni. Sú leið sem ég fór til dæmis einu sinni þegar ég flutti veiðistjóra til Akureyrar, þriggja manna stofnun, og var næstum því tekinn pólitískt af lífi fyrir það, kenndi mönnum margt. Þá drógu menn þá ályktun að besta leiðin væri sú, sem að hluta til var farin, að setja upp útibú ýmissa merkra stofnana á landsbyggðinni. Það hafa menn gert. Þau hafa mörg lukkast vel. En þar er leið til þess að flytja störf út á landsbyggðina, ekki einungis með því að búa til ný störf heldur líka þegar eðlileg velta verður í höfuðstöðvum í Reykjavík, að ráða þá í þau og flytja verkefni sem þeim tengjast út á landsbyggðina. Það er besta leiðin ef menn ætla að gera þetta á annað borð.

Varðandi síðan Árneshreppinn vil ég líka rifja upp að ég var á þeirri tillögu sem hv. þingmaður nefndi. Ég hef alltaf stutt Árneshrepp sem birtist í því að þegar ég settist í ríkisstjórn 2007 reyndi ég að fylgja þessari þingsályktunartillögu eftir, m.a. með því að beita mér fyrir samgönguframkvæmdum. Það voru mjög góðar undirtektir hjá þáverandi samgönguráðherra, Kristjáni Möller. Þá voru menn að tala um vegabætur á Veiðileysuhálsi, náttúrlega Gjögur og ýmislegt fleira, en svo kom kreppan. Viljinn var fyrir hendi en nú erum við í þessari stöðu.

Ég þakka eigi að síður (Forseti hringir.) hv. þingmanni fyrir umhyggju hennar fyrir þessum stað sem ég tel reyndar, að Grímsey meðtalinni, (Forseti hringir.) eitt afskekktasta og einangraðasta byggðarlag í landinu.