144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Áhyggjuefnið varðandi húsnæðismálin er að enga vegvísa er að finna í fjárlagafrumvarpi um fjárveitingar til félagslegs húsnæðis. Þegar verkamannabústaðakerfið var aflagt, í einhverju stundaræði þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn árið 1999, voru 15.000 íbúðir í félagslegri eigu teknar og afhentar þeim sem sátu í íbúðunum. Þar fór afrakstur 80 ára eignamyndunar okkar samfélags út á einni nóttu.

Það er ekkert samfélag til á Vesturlöndum þar sem ekki þarf opinbera aðstoð til að tekjulægstu einstaklingarnir geti staðið undir húsnæðiskostnaði. Hér var búin til kenning, af hálfu þessara stjórnarflokka árið 1999, um að félagslegt væri bara ljótt, að það væri enginn vandi fyrir fólk að búa í eigin húsnæði, allir, fólk gæti alveg staðið undir því. Til að gera það mögulegt var komið á 40 ára verðtryggðum lánum og ríflegum vaxtabótum. Fólk var þannig múrað inn í vaxtalöngu láni og með miklum vaxtabótum.

Nú er það orðið markmið Framsóknarflokksins að banna 40 ára húsnæðislán, en hann vill ekki byggja félagslegt húsnæði í staðinn. Það verður ekki bæði haldið og sleppt. Það er ekkert land í Vesturálfu sem styður ekki við þá tekjulægstu. Þeir geta ekki að óbreyttu staðið undir íslensku vaxtastigi. Ef þeir gætu hins vegar fengið lán sem væru tekin af Reykjavíkurborg á kjörunum sem nú bjóðast, 3,3%, vegna þess að Reykjavíkurborg er vel stjórnað og með góðan fjárhag, og væri hægt að fá 100 punkta niðurgreiðsluna frá Íbúðalánasjóði, þannig að útlánsvextir væru (Forseti hringir.) 2,3, þá er mögulegt að fólk stæði undir því, en það þarf opinbert framlag og opinberan atbeina.