144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir hennar ræðu og tek undir áhyggjur hennar af heilbrigðismálunum og sérstaklega þau orð að það kostar að gera ekki neitt.

Það er nokkuð ljóst að heilbrigðismálin eru vanfjármögnuð í þessum fjárlögum. En við vitum líka að velferðarsamfélagið okkar kostar. Samkvæmt skoðanakönnun sem Píratar gerðu er íslenska þjóðin tilbúin til þess og vill að Alþingi forgangsraði fjármunum í heilbrigðismálin. Það eru yfir 90% þjóðarinnar sem vilja það.

Við erum öll sammála um að þetta kostar peninga. Þar sem stjórnarmeirihlutinn er því miður ekki í þessari umræðu hér í kvöld þá held ég að við sem erum í minni hlutanum verðum að taka að okkur að ræða þetta, hvernig við ætlum að leysa þetta stóra dæmi sem eru heilbrigðismálin. Ég tek undir með hv. þingmanni að mér líst illa á aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga. Ég er sammála henni um að slíkt muni leiða til aukinnar stéttskiptingar í landinu.

Þá langar mig að spyrja: Hver er sýn hv. þingmanns á það hvernig við eigum að gera þetta? Erum við ekki að afla nægra tekna, erum við að skipta þeim vitlaust? Ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki með okkur í þessari umræðu. Ef við gætum nú bara gert þetta hér og nú, hvert væri þá innlegg hv. þingmanns í þessa mjög svo mikilvægu umræðu?