144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Fyrst varðandi geðheilbrigðismál barna þá leggur einmitt minni hlutinn til aukin framlög í þau mál því að á þau skortir í fjárlögum. Það er líka svolítið merkilegt í ljósi þess að í anda barnasáttmálans er farið að leita meira eftir skoðunum barna. Það hvílir mjög þungt á börnum sem hafa þurft á þessu kerfi að halda að þeim finnst vanta svo mikið upp á til að þau finni til öryggis og finnist þau fá þá þjónustu sem þau þurfa. Það er alvarlegt umhugsunarefni.

Varðandi framsetningu fjárlaga þá skil ég eiginlega ekki af hverju ekki er búið að breyta henni. Í nefndaráliti meiri hlutans eru skýringar. Á bls. 48 er skýring um ófyrirséð útgjöld þar sem er verið að draga úr útgjöldum, það er verið að lækka lífeyristryggingarnar. Þann texta þarf að lesa oftar en einu sinni mjög nákvæmlega til að átta sig á hvað er á ferðinni. Þegar stjórnarþingmenn skrifa skýringar virðist framsetningin með vilja vera gerð óskiljanleg. Ég trúði því eiginlega ekki að ég væri að lesa þessar fregnir en ég áttaði mig síðan á því að verið væri að hætta við verðlagsuppfærslu upp á 3,5% og lækka hana í 3% í samræmi við þjóðhagsspá. Það er náttúrlega stjórnarmeirihlutanum til skammar. Ég sagði það áðan, þau sviku kosningaloforð sín. Lögum samkvæmt mega þau ekki fara lægra en sem nemur uppfærslu við neysluverð, en þeim er (Forseti hringir.) algjörlega heimilt að fara hærra.