144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður talar um staðreyndir mála því að það hefur ekkert endilega verið honum efst í huga að byggja á staðreyndum.

Hann nefnir hér að umhverfisráðuneytið hafi verið með sérstaklega mikla aukningu á síðasta kjörtímabili. Það eru skýringar á því sem lúta að flutningi stofnana á milli ráðuneyta. Það skiptir máli í þessu eins og öðru, þegar hv. þingmaður er að tjá sig, að hann átti sig á staðreyndum máls.

Hann hefur til dæmis gerst sekur um það, þegar hann er að ræða um Ríkisútvarpið, að blanda saman rekstrarfé og fjármagni sem sett er til fasteigna (GÞÞ: Nei, afskrifta skulda.) eða fjárfestinga. (GÞÞ: Afskrifta skulda.) Þá blandar hann saman algjörlega ólíkum þáttum og leggur að jöfnu.

Mér finnst nú merkilegast af öllu að hv. þingmaður kannist ekki við ályktanir SUS og Heimdallar gegn Ríkisútvarpinu. Er hann búinn að gleyma þeim?