144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[18:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er sammála því að það er vegið að þessari meginhugsun um sjálfstæði og raunar ekki bara í þessu eina tilviki heldur líka í tveimur öðrum sem ég nefndi hér. Hv. þingmaður talar um að blanda saman nefskattinum og öðru og talar um að sumir peningar séu einhvern veginn úr ríkissjóði meðan þetta sé eitthvað annað o.s.frv., að hræra þessu öllu saman. Það er í fyrsta lagi þetta skilyrði sem er núna í tillögum meiri hlutans, þ.e. að ef stjórn RÚV gerir ekki þetta eða hitt þá verði peningarnir teknir aftur. Það er svona vegið að sjálfstæðinu.

Í öðru lagi afar óvarleg orð sem lúta að því að — „ég er nú í hagræðingarhópnum“, segir formaður fjárlaganefndar, í sömu andrá og verið er að ræða fréttaflutning Ríkisútvarpsins. Það er líka verið að vega að sjálfstæði miðilsins.

Það eru því mjög margar vísbendingar í gangi um að sjálfstæðið sé ekki virt að fullu. Það er áhyggjuefni. En um leið, fyrir okkur sem erum stuðningsmenn Ríkisútvarpsins, gefur það mjög skýrar vísbendingar um það hvar varðstaðan þarf að vera.